Lífið

Herra Níels var sóttur á kajak út í Gróttu

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Bjargvætturinn Guðmundur Breiðdal, kemur hér með Grímu Valsdóttur, eða apann Herra Níels, í land.
Bjargvætturinn Guðmundur Breiðdal, kemur hér með Grímu Valsdóttur, eða apann Herra Níels, í land.

Gríma Valsdóttir sem leikur apann Herra Níels í leiksýningunni Lína Langsokkur var sótt á kajak út í Gróttu þegar óhapp átti sér stað í Borgarleikhúsinu á sunnudag.

Í upphitun fyrir lokasýninguna á Línu Langsokk varð Mikael Köll Guðmundsson sem leikur einnig Herra Níels fyrir því mikla óláni að misstíga sig og var Gríma því kölluð út.

Hún var þó hins vegar ekki alveg á besta stað til þess að rjúka upp í leikhús því hún var stödd úti í Gróttu í bekkjarferðalagi og þar var háflóð og ekki hægt að ganga yfir. Hún átti að koma heim um miðjan dag, þegar fjaraði og hægt væri að ganga yfir en óhappið í leikhúsinu átti sér stað að morgni sunnudags.

Gríma og Guðmundur eru hér á leið í land.

„Ég hringdi í frábæra foreldra sem ég vissi að væri mikið græjufólk og þau brugðust svona skjótt við. Þau hringdu í vini sína sem sóttu kajak fyrir tvo í Nauthólsvík og aðrar sjógræjur. Svo komu þeir og annar þeirra sigldi út í Gróttu og klæddi hana í sjóklæði og sigldi með hana til baka. Hún var svo komin í leikhúsið hálftíma fyrir sýningu,“ útskýrir Ilmur Stefánsdóttir, móðir Grímu.

Hún hafði sjálf reynt að sækja dóttur sína en þegar hún var farin að skríða á fjórum fótum á steinunum í sjónum gerði hún sér grein fyrir því að hún kæmist ekki yfir og því var ákveðið að grípa til aðgerða. Þetta ferli tók um það bil tvær og hálfa klukkustund.

„Það var hringt í mig klukkan tíu og hún var komin í leikhúsið klukkan hálf eitt.“

Sýningin gekk vel að sögn Ilmar. „Sýningin gekk ótrúlega vel, Grímu leið eins og sannri Línu Langsokk, þetta var þannig ævintýri,“ segir Ilmur létt í lundu.

Lokasýningin á Línu langsokk á sunnudaginn í Borgarleikhúsinu var sú 102. í röðinni en sýningin var frumsýnd í september 2014.

Ævintýrið sem Gríma lenti í á sýningardaginn minnir óneitanlega á eitthvað sem Lína langsokkur gæti lent í. Lokasýningin gekk mjög vel en hér sjáum við Línu og Herra Níels skemmta sér saman í sýningunni.


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira