Erlent

Sókn Kúrda rekur fleyg á milli Bandaríkjanna og Tyrkja

Samúel Karl Ólason skrifar
Kúrdar í Sýrlandi mótmæltu því nýverið að fulltrúum þeirra hafi ekki verið boðið að taka þátt í viðræðum um frið í Sýrlandi.
Kúrdar í Sýrlandi mótmæltu því nýverið að fulltrúum þeirra hafi ekki verið boðið að taka þátt í viðræðum um frið í Sýrlandi. Vísir/AFP
Síðustu daga hafa Kúrdar sótt hratt fram í norðanverðu Sýrlandi. Þeir hafa nýtt sér sókn stjórnarhers Sýrlands og loftárásir Rússa við borgina Aleppo, til að taka þorp og bæi af uppreisnar- og vígahópum. Það líst yfirvöldum í Tyrklandi ekki á og hafa þeir skotið yfir landamæri Tyrklands og Sýrlands, til að hægja á Kúrdum.

Bandaríkin hafa stutt Kúrda í Sýrlandi í óþökk Tyrkja, sem telja að nú starfi Kúrdar einnig með Rússum.

Tyrkir lítur á Kúrda í Sýrlandi sem hryðjuverkahóp og óttast að velgengni þeirra muni gefa Kúrdum í Tyrklandi byr undir báða vængi. Í austurhluta Tyrklands hafa Kúrdar barist fyrir sjálfstæði um áratuga skeið.

Undanfarnar vikur hafa loftárásir Rússa og stuðningur Íran og Hezbollah gerbreytt borgarastyrjöldinni í Sýrlandi. Stjórnarherinn hefur lokað fyrir síðustu birgðaleið uppreisnarmanna frá Tyrklandi og eru nálægt því að umkringja borgina Aleppo.

Samkvæmt frétt Reuters telja yfirvöld Bandaríkjanna að Kúrdar hafi ekki verið í beinu samstarfi við Rússa heldur frekar nýtt sér aðgerðir þeirra. Bandaríkin líta á Kúrda sem þann hóp sem best er til þess fallinn að berjast gegn Íslamska ríkinu í Sýrlandi.

Bandaríkin hafa kallað eftir því að Kúrdar stöðvi sókn sína og að Tyrkir hætti árásum sínum á Kúrda.

Talið er að um 30 milljónir Kúrda búi í Íran, Tyrklandi, Írak og Sýrlandi. Þar af eru Kúrdarnir í Sýrlandi stærsti hópurinn. Undir stjórn fjölskyldu forsetans Bashar al-Assad voru Kúrdar í Sýrlandi beittir mikilli kúgun. Þá eru miklar olíulindir á heimasvæði þeirra í landinu en Kúrdar hafa lítið sem ekkert hagnast á því.

Nú hafa þeir skapað sér svo til gott sem eigið sjálfstjórnarsvæði í norðanverðu Sýrlandi sem og í norðanverðu Írak.


Tengdar fréttir

Rússar hafna ásökunum um stríðsglæpi

Hátt í fimmtíu manns féllu í eldflaugaárásum á fjögur sjúkrahús og skóla á svæðum sem uppreisnarmenn ráða yfir í norðurhluta Sýrlands í gær.

Sýrlendingar kvarta yfir framferði Tyrkja

Stjórnvöld í Sýrlandi hafa fordæmt hernaðaraðgerðir Tyrkja gegn Kúrdum innan landamæra Sýrlands og segja þær brot á fullveldi landsins. Sýrlendingar hafa farið formlega fram á það við Sameinuðu þjóðirnar að málið verði tekið upp í Öryggisráðinu en Tyrkir létu sprengjum rigna á kúrdískar hersveitir í gær, annan daginn í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×