Erlent

Óttast að geislavirkt efni hafi lent í röngum höndum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fyllsta öryggis er yfirleitt gætt þegar geislavirk efni eru meðhöndluð eða flutt. Myndin sýnir flutning á geislavirkum úrgangi.
Fyllsta öryggis er yfirleitt gætt þegar geislavirk efni eru meðhöndluð eða flutt. Myndin sýnir flutning á geislavirkum úrgangi. vísir/epa

Yfirvöld í Írak leita nú að hættulegum geislavirkum efnum sem hurfu úr geymsluhúsnæði skammt frá Basra í nóvember í fyrra. Í gögnum frá umhverfisráðuneyti og í máli embættismanna í landinu má lesa út ótta um að efnin hafi ratað í hendur Íslamska ríkisins. Þetta kemur fram á vef Reuters.

Efnið var geymt í tösku á stærð við tölvutösku. Geymsluhúsnæðið er í eigu bandaríska olíuþjónustufyrirtækisins Weatherford. Talsmaður íraska umhverfisráðuneytisins vildi ekki tjá sig um málið er Reuters falaðist eftir því og bar fyrir sig þjóðaröryggi.

Efnið sem um ræðir er iridium-192 og var er notað við mælingar á hvort veikleika sé að finna á olíu- og gasleiðslum. Það var í eigu tyrknesks fyrirtækis sem heitir SGS Turkey. Talsmenn og stjórnendur fyrirtækisins hafa neitað að tjá sig vegna málsins.

Talsvert magn af sambærilegu efni hefur glatast víða um heim og er óttast að hernaðarsamtök víða um heim ásælist það. Ekki er hægt að brúka efnið til að búa til kjarnorkusprengju en hins vegar er hægt að blanda efninu saman við aðrar sprengjur.

Ekki er vitað hvort efninu var stolið eða hvort það týndist hreinlega. Málið er í athugun hjá íröskum yfirvöldum en Bandaríkjamenn hafa einnig komið að leit að efninu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira