Erlent

Árásin í Ankara: Davutoglu segir uppreisnarhóp Kúrda bera ábyrgð

Atli Ísleifsson skrifar
28 manns létust og 61 særðist í árásinni.
28 manns létust og 61 særðist í árásinni. Vísir/AFP

Ahmet Davutoğlu, forsætisráðherra Tyrklands, segir að kúrdíski uppreisnarhópurinn YPG beri ábyrgð á sprengjuárásinni í Ankara í gær þar sem 28 fórust og 61 særðist.

Forsætisráðherrann segir að búið sé að bera kennsl á árásarmennina og hafi níu manns verið handteknir vegna málsins.

Talsmenn yfirvalda segir sprengingin hafi orðið eftir að bíl, drekkhlöðnum sprengjuefnum, hafi verið ekið upp að rútum á vegum hersins. Nokkur fórnarlambanna voru óbreyttir borgarar.

Útför þeirra sem féllu verður haldin síðar í dag. Fjölmargir hafa fordæmt árásina, þeirra á meðal Bandaríkjastjórn og NATO.

Árásin var gerð klukkan 18:30 að staðartíma í gærkvldi í hverfi nærri þinghúsinu og höfuðstöðvum hersins.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur hótað hefndum vegna árásarinnar og segir hann koma til greina að svara í sömu mynt á hvaða tímapunkti sem er. Tyrkir muni verja hendur sínar.

Frelsishreyfing Kúrda, PKK, hefur um árabil barist fyrir sjálfstæði Kúrda og hafa vígamenn innan þeirra raða reglulega ráðist gegn tyrkneskum öryggissveitum. Tyrklandsher hefur að undanförnu fjölgað árásum á stöðvar og liðsmenn YPG, uppreisnarhóps Kúrda, í norðurhluta Sýrlands, sem Tyrklandsstjórn segir vera tengda PKK.

Þetta er ekki fyrsta mannskæða árásin í Tyrklandi á síðustu mánuðum, en í janúar féllu tíu manns, aðallega þýskir ferðamenn, í sjálfsvígssprengjuárás í Sultanahmet-hverfinu í Istanbúl.

Á annað hundrað manns fórust í tveimur sprengjuárásum í friðargöngu í Ankara í október. Þá féllu rúmlega þrjátíu manns í sjálfsvígssprengjuárás í kúrdíska bænum Suruc, nærri sýrlensku landamærunum, í júlí.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira