Innlent

Samkeppniseftirlitið boðar hærri sektir

Ingvar Haraldsson skrifar
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, á von á að sektir eftirlitsins hækki á næstu árum.
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, á von á að sektir eftirlitsins hækki á næstu árum. vísir/anton

Búast má við því að sektir Samkeppniseftirlitsins hækki á næstu árum að sögn Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Páll sagði á fundi eftirlitsins í gær, að það yrði að líkindum niðurstaða aukinnar samræmingar eftirlitstækja samkeppniseftirlitsstofnana í Evrópu.

„Eitt af því sem menn eru að draga lærdóm af úr fortíðinni í Evrópu er að sektir hafa ekki verið að hafa þau varnaðaráhrif í öllum tilfellum, í öllum ríkjum í Evrópu sem æskilegt hefði verið. Þannig að þróunin er í þá átt. Það má alveg gera ráð fyrir því að sú þróun sem verið hefur í Evrópu hækki sektir hér á landi líka,“ sagði Páll.

Forstjórinn benti á að af um sextíu sektum sem Samkeppniseftirlitið hefði lagt á fyrirtæki hefðu sex fyrirtæki verið sektuð oftar en einu sinni og eitt fyrirtæki (Síminn) hefði verið sektað sex sinnum. Það bendi til þess að sektirnar hafi ekki þann fælingarmátt sem ætlast hafi verið til, að minnsta kosti ekki í þeim málum. Þá hefðu sektir Sam­keppnis­eftirlitsins almennt verið fremur lágar miðað við þau viðmið sem ESA notar við álagningu sekta.

Þá sagði Páll að á næstu árum mætti búast við því að Samkeppniseftirlitið myndi stefna að auknu gegnsæi varðandi álagningu sekta líkt og tíðkast hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA).

Reglurnar mættu hins vegar ekki vera þannig að fyrirtæki gætu reiknað út fyrir fram hvort brot á samkeppnislögum borgi sig.

Gjermund Mathiesen, yfirmaður samkeppnismála hjá ESA, sagði í erindi sínu á fundinum að búast mætti við að meira myndi bera á hlutverki ESA við rannsókn samkeppnismála hér á landi á næstu árum.

ESA hefði þegar rannsakað nokkur mál sem sneru að íslenskum fyrirtækjum án þess að það hefði skilað niðurstöðu. Ósennilegt væri að ekkert þessara mála myndi skila niðurstöðu á næstu árum eða áratugum. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira