Innlent

Grunaður um gróft kynferðisbrot en finnst ekki

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Árásin átti sér stað um áttaleytið á mánudagsmorgun og var lögregla kölluð á vettvang.
Árásin átti sér stað um áttaleytið á mánudagsmorgun og var lögregla kölluð á vettvang. Vísir/Anton Brink

Karlmaðurinn sem grunaður er um að hafa villt á sér heimildir til að komast inn á heimili móður í Hafnarfirði og ráðist á hana er enn ófundinn. Árásin átti sér stað um áttaleytið á mánudagsmorgun og var lögregla kölluð á vettvang.

Maðurinn á að hafa sagst vera á vegum orkufyrirtækis og þurfa að lesa af mælum. Konan hleypti honum inn þar sem hann réðst á hana. Er hann grunaður um að hafa beitt konuna kynferðislegu ofbeldi. Hún var ein heima með ungbarn.

Lögregla lýsti eftir manninum á miðvikudag en greindi ekki frá því hvers vegna hún óskaði eftir upplýsingum um manninn. Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu, staðfestir við Vísi að maðurinn sé ófundinn en nokkrar vísbendingar hafi borist.

Forgangsmál hjá lögreglu
Maðurinn er talinn vera um 180 sm á hæð, fölleitur og dökkklæddur og var með svarta hanska og húfu. Hann er talinn vera á aldrinum 35-45.

Lögregla hefur að öðru leyti ekki viljað upplýsa að hverju rannsóknin snýr vegna rannsóknarhagsmuna. Árni staðfestir þó að verið sé að vinna úr vísbendingum og kæra liggi fyrir í málinu. Þá heyrir málið undir kynferðisbrotadeild.

Samkvæmt heimildum Vísis er málið algjört forgangsmál innan raða lögreglu.

Þeir sem geta veitt upp­lýs­ing­ar um mann­inn og ferðir hans eru vin­sam­leg­ast beðnir um að hafa sam­band við lög­reglu á skrif­stofu­tíma í síma 444 1000, en upp­lýs­ing­um má einnig koma á fram­færi á net­fangið abend­ing@lrh.is eða í einka­skila­boðum á fés­bók­arsíðu lög­regl­unn­ar á höfuðborg­ar­svæðinu.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira