Innlent

Heimildir til innleiðingar nýrra lyfja rýmkaðar verulega

Heimir Már Pétursson skrifar
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra.
Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra. Vísir/Pjetur
Ríkisstjórnin samþykkti í morgun tillögu heilbrigðisráðherra þess efnis að fela Fjármála- og efnahagsráðherra í samráði við heilbrigðisráðherra að tryggja fjármagn í því skyni að unnt verði að taka í notkun fleiri ný lyf á árinu 2016.





Í fjárlögum þessa árs er gert ráð fyrir að fjárheimildir til S-merktra lyfja verði 6.3 milljarðar króna.

 Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu segir að Lyfjagreiðslunefnd hafi fengið yfirlit yfir þau forgangslyf sem Landsspítalinn óski eftir að fá að innleiða á þessu ári. Á þeim lista séu m.a. mörg ný krabbameinslyf. 



Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra setti 100 milljónir af fé ráðuneytisins til þessara mála í janúar en nú hefur ríkisstjórnin veitt viðbótar fjárheimild.

Heilbrigðisráðherra segir að nú muni hann fara yfir málin með formanni lyfjagreiðslunefndar á næstu dögum.

„Það voru mjög knappar heimildir í fjárlögum ársins 2016. Þegar við höfðum rýnt í þessar áætlanir betur og óskir spítalana þá kemur í ljós að þörfin er meiri en rúmast innan þeirra heimilda sem við fengum í fjárlögum. Við erum að leita allra leiða til að tryggja það að geta mætt þessum óskum,“ segir Kristján Þór.

„Það er breytilegt hve áríðandi þetta er en við munum leita leiða til að tryggja það að við getum innleitt forgangslyf.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×