Innlent

Viðbúnaðarstig kemur til greina vegna inflúensu

Ásgeir Erlendsson skrifar

Til greina kemur að lýsa yfir sérstöku viðbúnaðarstigi á Landspítalanum vegna inflúensufaraldursins sem nú geisar. Töluvert álag hefur verið á starfsfólki Landspítalans vegna faraldursins sem enn hefur ekki náð hámarki. 

Jón Magnús Kristjánsson, læknir á bráðadeild Landspítalans, gerir ráð fyrir að inflúensusmitum eigi eftir að fjölga.

„Það er ennþá mjög mikið að gera hjá okkur. Við erum að fá inn töluverðan fjölda af sjúklingum með grunuð inflúensusmit. Á sama tíma eru margar aðrar öndunarfæraveirur í gangi í þjóðfélaginu. Þó svo að fólk sé ekki með inflúensuna þá eru það samt sjúklingar sem þurfa að lenda í einangrun.“

Jón Magnús segir öll einangrunarrými á bráðamóttökunni vera nýtt og það geti skapað vandræði. Hann segir jafnframt koma til greina að lýsa yfir sérstöku viðbúnaðarstigi á spítalanum vegna þessa.

„Ástandið er endurmetið á hverjum degi og stundum oftar en einu sinni í dag. Enn sem komið er hefur ekki þurft að lýsa yfir viðbúnaðarstigi en slík áætlun er fyrir hendi. Við munum gera það ef þörf krefur. Það kemur klárlega til greina.Okkar skilaboð til fólks eru fyrst og fremst þau að taka þessar sýkingar alvarlega. Þetta eru alvöru veikindi, að fá inflúensu. En leita í fyrsta lagi til heilsugæslunnar og Læknavaktarinnar ef menn grunar að um þeir hafi flensu. Þannig að við getum haldið spítalanum opnum fyrir þá sem virkilega þurfa þess.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira