Innlent

Konur andvígari áfengi í búðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Konur eru andvígari frumvarpinu en karlar.
Konur eru andvígari frumvarpinu en karlar.
Andstaðan við það að heimila sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum hefur aukist frá því að Fréttablaðið spurði síðast, í mars 2015. Þegar einungis eru skoðuð svör þeirra sem afstöðu taka sést að nú eru 62 prósent aðspurðra andvíg því að heimila sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum, en 38 prósent eru því fylgjandi. Þegar spurt var í mars í fyrra voru 55 prósent andvíg en 45 prósent voru fylgjandi.

Andstaðan er meiri meðal kvenna en karla. Rétt rúmlega 70 prósent kvenna eru andvíg því að selja áfengi í verslunum en tæplega 30 prósent eru því fylgjandi. Aftur á móti er rétt rúmlega helmingur karla því andvígur. Þegar skoðuð eru svör eftir aldri sést að 75 prósent þeirra sem eru fimmtíu ára og eldri eru andvíg því að bjór og léttvín sé selt í matvöruverslunum en 35 prósent fylgjandi. Aftur á móti er einungis 51 prósent þeirra sem eru á aldrinum 18-49 ára andvígt því að heimila sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum.



Vilhjálmur Árnason
Vilhjálmur Árnason, fyrsti flutningsmaður frumvarps um afnám einkasölu ríkisins á áfengi, segir ástæðulaust að ætla að áfengi verði selt í stórum stíl í matvöruverslunum á höfuðborgarsvæðinu. Verslunin muni áfram verða á veitingastöðum en líka í sérvöruverslunum og á internetinu. „Þessi matvöruverslunarvinkill er aðallega til að tryggja að það verði boðið upp á þessa vöru á landsbyggðinni. Þannig að það verði hægt að nýta samlegðar­áhrifin þar með verslun sem berst í bökkum. Mér er alveg sama hvort stórmarkaðirnir selji þetta eða ekki.“

Þórarinn Tyrfingsson
Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir það ekki koma á óvart að andstaðan sé meiri á meðal eldra fólks. „Sérstaklega er það augljóst að með aldrinum þá áttar maður sig á vandanum sem af áfengi stafar. Þess vegna vilja menn ekkert gera sem eykur hættuna á því að ungmenni fari illa út úr áfengisneyslu eða verði áfengissjúk,“ segir Þórarinn.

Hringt var í 1.158 manns þar til náðist í 801 samkvæmt lagskiptu úrtaki dagana 26. og 27. janúar. Svarhlutfallið var 69,2 prósent. Þátttakendur voru valdir með slembi­úrtaki úr þjóðskrá.

Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri. Spurt var: Finnst þér að það eigi að heimila sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum? Alls tóku 90 prósent þeirra sem náðist í afstöðu til spurningarinnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×