Innlent

Hríðarveður á Vestfjörðum og sviptivindar í Öræfasveit

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Norðaustanáttin verður líklega ríkjandi út vikuna með snjókomu á köflum og köldu veðri.
Norðaustanáttin verður líklega ríkjandi út vikuna með snjókomu á köflum og köldu veðri. Vísir/Vilhelm
Búist er við sviptivindum í Öræfasveit fyrir hádegi í dag, allt að 30 til 40 metrum á sekúndu, en á vef Vegagerðarinnar segir að reikna má með að það lægi mikið eftir klukkan ellefu. Þá er spáð hríðarveðri á norðanverðum Vestfjörðum með morgninum. Verður samfelld ofankoma og nokkuð blint samkvæmt vef Vegagerðarinnar.

 

Veðurstofan spáir norðaustan átt í dag, 18-23 metrum á sekúndu suðastanlands fram eftir morgni og á Vestfjörðum, annars talsvert hægari vindur. Snjókoma eða él en þurrt á suðvestanverðu landinu. Frost verður frá 0 upp í 10 stig. Þá er búist við allhvassri eða hvassri norðaustanátt í kvöld. Minnkandi norðanátt á morgun og él á Norður-og Austurlandi en bjartviðri sunnanlands.

Norðaustanáttin verður síðan líklega ríkjandi út vikuna, að því er segir á vef Veðurstofunnar, með snjókomu á köflum og köldu veðri.

Færð á vegum:

Það er hálka á Hellisheiði og Þrengslum og hálka eða hálkublettir víða á Suðurlandi. Þæfingsfærð er á Lyngdalsheiði og á Reynisfjalli en þar er einnig mjög hvasst.

Eins er víða nokkur hálka á Vesturlandi en á Bröttubrekku er þæfingsfærð og snjóþekja á Svínadal og á norðanverðu Snæfellsnesi. Ófært er á Fróðárheiði.  Óveður er í Staðarsveit og stórhríð á Útnesvegi.  Skafrenningur er mjög víða á Vesturlandi, einkum á fjallvegum.

Snjóþekja er á flestum vegum á Vestfjörðum og snjókoma eða éljagangur á norðanverðum fjörðunum. Enn er ófært á Þröskuldum, Klettshálsi og Kleifaheiði en unnið að hreinsun.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Norðurlandi en þó eru aðeins hálkublettir í Skagafirði. Ófært er um Hólasand og þungfært á Dettifossvegi.

Á Austurlandi er víðast nokkur hálka inn til landsins en talsvert autt niðri á Fjörðum.

Hálka er á hringveginum á Suðausturlandi frá Höfn og áfram suður og óveður í Öræfasveit. Þungfært er niður í Meðalland.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×