Handbolti

„Stærstu þakkirnar fær Dagur Sigurðsson“

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson varð Evrópumeistari í gær.
Dagur Sigurðsson varð Evrópumeistari í gær. vísir/getty

Dagur Sigurðsson stýrði Þýskalandi til Evrópumeistaratitils í gær með glæsibrag, en hið kornunga lið Þjóðverja pakkaði Spáni saman í úrslitaleiknum í Kraká, 24-17.

Aldrei áður hefur svo ungt lið staðið uppi sem meistari, en Dagur hefur fengið mikið lof fyrir frammistöðu sína á þessu móti, sérstaklega í ljósi þess að hann var með sjö lykilmenn meidda þegar kom að undanúrslitunum og úrslitaleiknum.

Sjá einnig: Dagur: Ég er stoltur og þakklátur

Þýski handboltamaðurinn Daniel Stephan, sem var kjörinn besti handboltamaður heims árið 1998, bendir á Dag Sigurðsson aðspurður hver lykilinn að árangri Þýskalands var í Póllandi.

„Stærstu þakkirnir fær þjálfarinn Dagur Sigurðsson. Allar hans ákvarðanir báru ávöxt,“ segir Stephan, sem var í síðasta Evrópumeistaraliði Þýskalands árið 2004, í viðtali við Berlinger Morgenpost.

Joachim Löw, þjálfari heimsmeistaraliðs Þýskalands í fótbolta, var einnig mjög hrifinn af Degi en fannst best hvernig hann lét liðið vera í forgrunni.

Sjá einnig: „Athyglin sem Dagur fær á stigi sem maður skilur ekki“

„Á sama tíma og við hrósum Degi var liðið aðalatriðið. Það börðust allir fyrir hvorn annan,“ segir Löw.

Ljóst er að Dagur Sigurðsson er búinn að koma stærstu handboltaþjóð heims á toppinn enda nýtur hann fulls traust leikmanna sinna. „Við treystum honum í blindni,“ sagði varnarjaxlinn Erik Schmidt eftir sigurinn í gær.


Tengdar fréttir

Fullkomið Dagsverk

Dagur Sigurðsson fór með hálfgert B-landslið Þýskalands á EM í Póllandi en stóð uppi sem Evrópumeistari eftir magnaða frammistöðu gegn Spáni í úrslitaleiknum. Degi var víða hampað í Þýskalandi eftir sigurinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira