Handbolti

Kanslarinn, forsetinn og ráðherra hrósa Degi og þýsku strákunum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dagur Sigurðsson stýrir sínum mönnum til sigurs í Kraká í gær.
Dagur Sigurðsson stýrir sínum mönnum til sigurs í Kraká í gær. vísir/getty

Leiðtogar Þýskalands hrósa margir hverjir Degi Sigurðssyni og strákunum hans í handboltalandsliðinu fyrir árangurinn sem liðið náði á EM í Póllandi.

Með sjö lykilmenn meidda stóð Dagur Sigurðsson uppi sem sigurvegari með þýska liðið, eitthvað sem fáir höldu að væri hægt áður en mótið hófst.

Sjá einnig: 33 prósent tapleikjanna gegn Íslandi

Lærisveinar Dags fóru illa með firnasterkt lið Spánar í úrslitaleiknum í Kraká í gærkvöldi þar sem magnaður varnarleikur Þýskalands skilaði sjö marka sigri, 24-17.

„Allt Þýskaland er hrifið af þessum magnaða árangri yngsta liðsins í sögunni sem verður Evrópumeistari. Ég hef séð flesta leikina og elska að sjá liðsandann sem skilaði sigrinum á endanum. Þið getið verið stoltir af ykkar afreki. Fagnið nú sigrinum,“ sagði Joachim Gauck, forseti Þýskalands, eftir sigur landsliðsins.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, var eðlilega mjög ánægð með sigur sinna manna, en hún var í sambandi við Dag á meðan mótinu stóð.

„Ég óska þýska handboltalandsliðinu innilega til hamingju með Evrópumeistaratitlinn. Þetta unga þýska lið hefur vaxið með hverjum leiknum og sýndi í úrslitaleiknum að það er það besta,“ sagði Merkel, en innanríkisráðherann Thomas de Maiziere hrósaði þjálfaranum Degi Sigurðssyni sérstaklega.

„Ég tek hatt minn ofan fyrir þessu magnaða afreki. Dagur Sigurðsson hefur skapað mikla liðsheild úr þessu unga liði og við elskum að horfa á það spila. Þetta er sterkt fyrir þýskan handbolta og sterkt fyrir þýskt íþróttalíf,“ sagði innanríkisráðherrann.


Tengdar fréttir

Fullkomið Dagsverk

Dagur Sigurðsson fór með hálfgert B-landslið Þýskalands á EM í Póllandi en stóð uppi sem Evrópumeistari eftir magnaða frammistöðu gegn Spáni í úrslitaleiknum. Degi var víða hampað í Þýskalandi eftir sigurinn.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira