Fótbolti

Messi mun hitta krakkann í plastpokabúningnum

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ahmadi er hér sáttur í plastpokabúningnum. Bráðum fer hann úr sveitinni í Afganistan og á Camp Nou þar sem hann mun hitta Messi sjálfan.
Ahmadi er hér sáttur í plastpokabúningnum. Bráðum fer hann úr sveitinni í Afganistan og á Camp Nou þar sem hann mun hitta Messi sjálfan. mynd/facebook
Fimm ára drengur frá Afganistan varð heimsfrægur á einum degi þegar mynd af honum í plastpokabúningi merktum Lionel Messi fór sem eldur í sinu um internetið.

Drengurinn heitir Murtaza Ahmadi og þegar myndin fór á flug hófst strax leit að honum. Fólk vildi gefa honum almennilega Messi-treyju og þar á meðal var sjálfur Messi.

Ahmadi er mikill aðdáandi Messi en foreldrar hans gátu ekki útvegað honum búning. Þau eru fátækir bændur. Eldri bróðir hans hjálpaði honum því að gera Messi-búning úr plastpoka.

„Hann grét í marga daga því honum langaði svo í búning. Bróðir hans hjálpaði honum loksins og þá varð hann hamingjusamur, sagði faðir drengsins.

Knattspyrnusamband Afganistan hefur nú staðfest að Barcelona og Messi hafi verið í sambandi upp á að setja upp fund á milli Messi og drengsins.

Stefnt er að því að fljúga drengnum og fjölskyldu hans til Barcelona þar sem hægt verður að binda endahnútinn á þessa fallegu sögu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×