Enski boltinn

Pellegrini: Ekki farið á bakvið mig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Manuel Pellegrini á bakvið Pep Guardiola.
Manuel Pellegrini á bakvið Pep Guardiola. vísir/getty
Manuel Pellegrini er á sinni síðustu leiktíð með Manchester City, en Sílemaðurinn tilkynnti í dag að hann verður ekki áfram með City-liðið.

Arftaki hans verður Spánverjinn Pep Guardiola, sem af flestum er talinn besti fótboltaþjálfari heims. Hann yfirgefur Bayern München í sumar, væntanlega með þriðja Þýskalandsmeistaratitlinum í röð, og tekur við Manchester City.

„Manuel, sem styður þessa ákvörðun heilshugar, er algjörlega einbeittur á að ná sínum markmiðum með liðið á þessari leiktíð. Hann nýtur mikillar virðingar hjá félaginu og allra sem þarf starfa,“ segir í fréttatilkynningu sem Manchester City sendi frá sér í dag.

City talaði fyrst við Guardiola árið 2012 þegar hann ákvað svo að taka við Bayern München, og voru viðræðurnar núna í raun áframhald af því, að því fram kemur í fréttatilkynningunni.

„Við vildum sýna Manuel Pellegrini og leikmönnunum þá virðingu að greina frá þessu núna til að útrýma öllum pælingum um framtíðina hjá öðrum utan félagsins,“ segir í henni enn fremur.

Pellegrini var brattur þegar hann ræddi við blaðamenn í dag fyrir leik liðsins gegn Sunderland annað kvöld. Hann er ekki ósáttur, að eigin sögn.

„Ég klára minn samning hérna 30. júní. Það hefur margt verið skrifað og skrafað en ekkert var gert á bakvið mig. Ég tel það ekki gott að menn séu með einhverjar bollaleggingar og þess vegna ákvað ég að segja ykkur blaðamönnum frá þessu og leikmönnunum,“ sagði Manuel Pellegrini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×