Innlent

Fjöldi reyndra starfsmanna hafa sagt upp í álverinu

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar

Fjöldi starfsmanna með áralanga starfsreynslu í álverinu í Straumsvík hafa sagt upp störfum þar undanfarnar vikur. Talsmaður starfsfólks segir það langþreytt á margra mánaða kjarabáráttu og vill að verkalýðsfélögin setji aukinn þunga í að leysa málin. 

Sigurður J. Haraldsson, trúnaðarmaður starfsmanna, segir að ástandið sé farið að hafa mikil áhrif á fólk enda hafa samningar verið lausir í marga mánuði. 

„Það er byrjað að bera á miklum uppsögnum og margir sem eru að hugsa sér til hreyfings,“ segir hann.

Sigurður hefur sjálfur starfað í álverinu í sextán ár og segir hann ástandið innan fyrirtækisins aldrei hafa verið jafn slæmt. Starfsfólk sé orðið langþreytt á deilunni. 

„Það hefur fólk verið að hætta eftir margra ára starf og það eru menn sem eru með lengri starfsaldur en ég sem eru að fara að hætta þarna vegna óánægju. Þeim finnst að fyrirtækið hafi bara algjörlega svikið þá með því að ætla að halda aftur launahækkunum og hirða þá launahækkun sem þeim finnst þeir eiga inni fyrir síðasta ár. Finnst þetta bara vera ólíðandi ástand og vill koma sér í burtu,“ segir Sigurður.

Fyrr í mánuðinum sendi Rio Tinto frá sér yfirlýsingu um að launahækkanir hjá fyrirtækinu hefðu allstaðar verið frystar. Sigurður segir ekki enn ljóst hvaða áhrif það kemur til með að hafa á deiluna.

„Síðan spilar það inn í að það er nú hálfskrítið að vera að setja rammasamkomulag inn á almennan launamarkað sem heitir Salek. Síðan eigi bara einhverjir fjögur hundruð starfsmenn í einhverju álveri bara að sitja og bíða og ekki fá neina hækkun. Þetta er auðvitað mjög lýjandi en samstaðan er þó mjög góð. Ef að verkalýðsfélögin taka sig saman og reyna að klára þetta mál þá geta þeir það vissulega,“ segir hann. 


Tengdar fréttir

Slitnaði upp úr álversdeilunni í nótt

Formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna segir að verið sé að semja við alþjóðlegan auðhring sem ekki sé tengdur við íslenskan raunveruleika.

Ríkissáttasemjari ræður næstu skrefum

Engar viðræður hafa farið fram í kjaradeilu starfsmanna við álverið í Straumsvík frá því verkfalli var aflýst. Samtök atvinnulífsins segja ákvæði um verktöku í veginum.

Gæti orðið láglaunasvæði með tímanum

Þungt hljóð er í starfsmönnum álversins í Straumsvík. Formaður Verkalýðsfélagsins Hlífar segir þeim blæða fyrir harða afstöðu forsvarsmanna ÍSAL um að hverfa ekki frá kröfunni um að bjóða fleiri störf út til verktöku. Starfsmennirnir íhuga næstu skref en til greina kemur að grípa til útflutningsbanns.

Rannveig vongóð um að sátt náist í tæka tíð

Rannveig Rist forstjóri Rio Tinto Alcan á Íslandi er vongóð um að samnningar við starfsmenn náist áður en allsherjarverkfall þeirra hefst á miðnætti. Fundað hefur verið með óformlegum hætti í allan dag og funda samninganefndinar nú hjá ríkissáttasemjara, þó ekki með formlegum hætti.

Búa sig undir að slökkva á Straumsvík

Samþykkt hefur verið að stéttarfélög starfsmanna álversins í Straumsvík aðstoði Rio Tinto Alcan í tvær vikur við það að slökkva á álverinu, eftir að verkfall hefst annan desember. Ef ekki tekst að semja, hefst verkfall um 300 starfsmanna álversins eftir rúma viku.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira