Enski boltinn

Everton gerir eldsnöggan Senegala að þriðja dýrasta leikmanni félagsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oumar Niasse fagnar marki með liði Lokomotiv Moskvu.
Oumar Niasse fagnar marki með liði Lokomotiv Moskvu. Vísir/Getty

Everton hefur gengið frá kaupum á Baye Oumar Niasse sem er 25 ára Senegali sem hefur spilað í Rússlandi frá 2014.

Everton borgar Lokomotiv Moskvu 13,5 milljónir punda fyrir leikmanninn sem spilar bæði sem kantmaður og framherji.

Oumar Niasse verður með þessu þriðji dýrasti leikmaður Everton frá upphafi en félagið borgaði bara meira fyrir þá Romelu Lukaku og Marouane Fellaini.

Oumar Niasse er búinn að ganga frá fjögurra og hálfs árs samningi við Everton eða til sumarsins 2020.

„Við erum ánægðir með að þetta sé gengið í gegn því við höfum fylgst með Oumar í langan tíma," sagði knattspyrnustjórinn Roberto Martinez.

„Hann hefur rétta persónuleikann og er leikmaður sem er á mjög góðum stað á sínum ferli. Honum gekk vel í Rússlandi og kemur með nýja möguleika inn í okkar lið," sagði  Martinez. Oumar Niasse er bæði sterkur og fljótur leikmaður.     

Oumar Niasse var með 8 mörk og 7 stoðsendingar í 15 leikjum með Lokomotiv Moskvu á þessu tímabili en leiktíðina á undan var hann með 4 mörk og 3 stoðsendingar í 13 leikjum. Hann var kosinn leikmaður ársins í Rússlandi árið 2015.

Hann kom til Lokomotiv Moskvu frá tyrkneska félaginu Akhisar Belediyespor.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira