Íslenski boltinn

Mikkel Maigaard hélt upp á nýja samninginn með því að afgreiða KR í kvöld | Myndir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mikkel Maigaard Jakobsen fagnar marki sínu.
Mikkel Maigaard Jakobsen fagnar marki sínu. Vísir/Ernir
Mikkel Maigaard Jakobsen, nýr danskur framherji Eyjamanna, skoraði bæði mörk ÍBV í 2-1 sigri á KR í úrslitaleik Fótbolta.net mótsins í Egilshöllinni í kvöld.

Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari Vísis og Fréttablaðsins, var á leiknum og náði þessum myndum hér fyrir ofan.

Bæði lið enduðu með tíu menn á vellinum en Eyjamenn voru manni færri frá 68. mínútu leiksins þegar Pablo Oshan Punyed Dubon fékk sitt annað gula spjald. KR-ingurinn Valtýr Már Michaelsson var síðan rekinn af velli átta mínútum fyrir leikslok.

Mikkel Maigaard Jakobsen er nýbúinn að ganga frá tveggja ára samningi við lið ÍBV og sýndi það í kvöld hvernig á að halda upp á nýjan samning. Hann skoraði bæði mörkin sín í fyrri hálfleiknum.

Fyrra markið skoraði Mikkel Maigaard með frábæru skoti á 25. mínútu og átta mínútum síðar var hann búinn að skora öðru sinni framhjá Stefáni Loga Magnússyni í marki KR-liðsins.

Mikkel Maigaard Jakobsen spilaði tvo leiki með ÍBV í Fótbolta.net mótinu og skoraði þeim fimm mörk en hann var með þrennu í sigri á Víkingi úr Ólafsvík.

Guðmundur Andri Tryggvason, sonur Eyjamannsins Tryggva Guðmundssonar, kom inná sem varamaður hjá KR í fyrri hálfleik þeghar Óskar Örn Hauksson fór meiddur af velli og það var síðan Guðmundur Andri sem skoraði eina mark KR-liðsins á 78. mínútu leiksins.

Það er hægt að lesa allt um leikinn á síðu fótbolta.net en upplýsingarnar hér fyrir ofan eru fengnar þaðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×