Enski boltinn

Pogba, Stones og Lewandowski fyrstir á dagskrá hjá Guardiola í Manchester

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Paul Pogba fagnar marki gegn Chievo um helgina.
Paul Pogba fagnar marki gegn Chievo um helgina. vísir/getty

Þrátt fyrir að félagaskiptaglugganum í janúar var lokað í gærkvöldi eru ensku blöðin strax farin af stað með slúður fyrir sumarluggann og þá sérstaklega í tengslum við Manchester City vegna ráðningu nýs knattspyrnustjóra.

Eins og greint var frá í gær lætur Manuel Pellegrini af störfum 30. júní og við starfinu tekur Spánverjinn Pep Guardiola, núverandi þjálfari Þýskalandsmeistara Bayern München.

Enska blaðið Daily Mail heldur því fram að franski miðjumaðurinn Paul Pogba sé fyrstur á dagskrá hjá honum, en því er haldið fram að Guardiola fái væna summu til að versla fyrir á leikmannamarkaðnum í sumar.

Pogba myndi þá snúa aftur til Manchester, en á yngri árum var hann á mála hjá Manchester United áður en Sir Alex Ferguson gafst upp á honum og hálfpartinn gaf hann til Juventus. John Stones er einnig á teikniborðinu hjá Guardiola sem ætlar að versla leikmenn fyrir 130 milljónir punda í sumar.

Götublaðið The Sun heldur því svo fram að Guardiola ætli að taka Robert Lewandowski með sér til City frá Bayern, en pólski framherjinn hefur verið magnaður á leiktíðinni og skoraði fimm mörk í einum og sama leiknum síðasta haust.

Manchester City gæti fengið samkeppni um Lewandowski frá Real Madrid, en The Sun heldur því fram að City sé tilbúið að borga 75 milljónir punda fyrir pólska landsliðsmanninn sem er næst markahæstur í þýsku 1. deildinni.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira