Körfubolti

Dvölin í Keflavík var prófsteinn frá Guði

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Earl Brown Jr. hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Keflavík.
Earl Brown Jr. hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Keflavík. vísir/ernir
„Þessi lífsreynsla hefur verið frábær,“ segir Earl Brown Jr., fyrrverandi leikmaður Keflavíkur í Dominos-deild, karla, í samtali við karfan.is, en Bandaríkjamaðurinn var látinn fara frá liðinu um helgina.

Þrátt fyrir að vera stiga- og frákastahæstur í Keflavíkurliðinu með 25,4 stig og 12,1 frákast að meðaltali í leik veðjaði Keflavík frekar á Jerome Hill sem það nældi í frá Tindastóli um helgina.

Með Brown innanborðs var og er Keflavík á toppi Dominos-deildarinnar, en Bandaríkjamaðurinn hefur fengið sinn skerf af gagnrýni fyrir slakan varnarleik í vetur.

„Ég hef fengið tækifæri að hitta fullt af nýju og góðu fólki sem og liðsfélögum sem ég hef bundist ævilöngu vinarbandi,“ segir Brown við karfan.is.

„Ég er þakklátur að hafa fengið tækifæri á að spila körfubolta og sýna minn leik hér á Íslandi. Ég lít á þetta sem prófstein frá Guði og Guð gefur aðeins sínum sterkustu mönnum slík erfið verkefni sem hann veit að þeir ráða við.“

Það kemur svo í ljós á fimmtudaginn hvernig Keflavík gengur án Browns, en toppliðið tekur þá á móti ólseigu liði Snæfells á heimavelli sínum í TM-Höllinni klukkan 19.15.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×