Enski boltinn

Arsenal mistókst að vinna í fjórða deildarleiknum í röð | Duttu niður í 4. sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexis Sánchez, leikmaður Arsenal.
Alexis Sánchez, leikmaður Arsenal. vísir/getty
Arsenal nýtti ekki fjölda dauðafæra og þurfti að sætta sig við markalaust jafntefli á heimavelli á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.

Arsenal hefur ekki unnið í fjórum síðustu deildarleikjum sínum sem þýðir að liðið er nú fimm stigum á eftir toppliði Leicester City. Manchester City og Tottenham unnu bæði leiki sína í kvöld sem þýðir að Arsenal er dottið niður í fjórða sæti deildarinnar.

Fraser Forster, markvörður Southampton, átti frábært kvöld í marki liðsins en oft var það klaufagangur Arsenal-manna fyrir framan markið sem átti mestan þátt í því að liðið skoraði ekki í kvöld.

Mesut Özil var í færunum framan af leik. Þjóðverjinn fékk fínt færi eftir laglega móttöku sína á 12. mínútu og síðan algjört dauðafæri á markteig á 21. mínútu. Í bæði skiptin varði Fraser Forster frá honum og seinni markvarslan var mögnuð enda átti Özil ekkert eftir nema að senda boltann í netið.

Mané komst næst Southampton-manna að skora í fyrri hálfleiknum eftir að hann komst einn á móti Petr Cech fjórum mínútum fyrir hálfleik en náði ekki að hitta markið.

Olivier Giroud fékk mjög gott færi í upphafi seinni hálfleiksins en Fraser Forster varði mjög vel frá honum.

Gabriel var nærri því búinn að færa Mané mark á silfurfati eftir tíu mínútna leik í seinni hálfleik en Mané náði ekki góðu skoti og Cech varði.

Arsenal pressaði síðan nær stanslaust allan seinni hálfleikinn og fékk dauðafæri eftir dauðafæri en Fraser Forster átti frábæran dag í markinu og leikmenn Arsenal var hreinlega fyrirmunað að koma boltanum í markið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×