Innlent

Bruninn á Hótel Ljósalandi: Rannsóknarvinnu á vettvangi að mestu lokið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá slökkvistarfi á sunnudaginn.
Frá slökkvistarfi á sunnudaginn. mynd/vilhjálmur h. guðlaugsson

Rannsókn á brunanum á Hótel Ljósalandi í Saurbæ í Dalasýslu er enn í fullum gangi og miðar vel, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Vesturlandi. Rannsóknarvinnu er að mestu lokið á brunavettvangi og búið að taka skýrslur af vitnum en ekki fæst uppgefið hjá lögreglu hvort að grunur hennar um eldsupptök hafi fengist staðfestur við þá vinnu.

Sjá einnig: Myndband sýnir þegar kveikt er í bastkörfu skömmu áður en hótelið stóð í ljósum logum


Eldur kom upp á hótelinu á sunnudagsmorgun en eins og greint hefur verið frá er eigandi þess í gæsluvarðhaldi á Litla-Hrauni vegna málsins, grunaður um íkveikju. Hann hefur verið yfirheyrður og verður að óbreyttu í haldi fram á fimmtudag. Maðurinn keypti eignina haustið 2013 og hefur verið rekstur þar síðan sumarið 2014. Áður var þar veitingaskáli sem fór í þrot árið 2012.

Lögreglunni á Vesturlandi og Vestfjörðum barst tilkynning um fimmleytið aðfaranótt sunnudags vegna ölvaðs manns sem gekk berserksgang við hótelið. Hálftíma síðar var tilkynnt til lögreglu að kviknað væri í hótelinu. Mættu slökkviliðsmenn á vettvang en þá voru lögreglumenn af Hólmavík nýmættir á vettvang.

Voru nágrannar þá þegar komnir á svæðið. Mildi var að vind hreyfði vart um nóttina sem kom í veg fyrir að eldurinn bærist úr byggingunni í þá næstu.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira