Enski boltinn

Manchester United er á toppnum á einum lista í tölfræði ensku deildarinnar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daley Blind og Juan Mata fagna marki með liðsfélögum sínum í Manchester United.
Daley Blind og Juan Mata fagna marki með liðsfélögum sínum í Manchester United. Vísir/Getty
Norska Dagbladet hefur í samvinnu við Opta-tölfræðiþjónustuna reiknað út hvaða lið eru á toppnum í ensku úrvalsdeildinni í nokkrum af áhugaverðum tölfræðiþáttum.

23 af 38 umferðum eru að baki og sú 24. fer fram í kvöld og á morgun. Leicester City er með flest stig (47), Manchester City hefur skorað flest mörk (45) og Tottenham hefur fengið á sig fæst mörk (18).

Það eru þó önnur félög á toppi annarra tölfræðilista eftir þessar 23 umferðir. Hér á eftir fer yfirlit yfir samantekt norska Dagbladet.

Manchester United er það lið sem hefur verið mest með boltann í leikjum sínum en liðsmenn United hafa haldið boltanum innan síns liðs í 56,3 prósent leiktímans.

Arsenal er bæði það lið sem hefur gefið flestar sendingar að meðaltali í leik (428,8) og Arsenal er líka það lið sem hefur átt hæsta hlutfall heppnaða sendinga eða 84,2 prósent.

Watford er það lið sem reyndir flestar langar sendingar fram völlinn eða 79,6 að meðaltali í leik. Aðeins 41 prósent þeirra (32,7 í leik) finn þó samherja.

Aston Villa hefur fengið fæst stig í deildinni en liðið er samt á toppnum yfir flest unnin skallaeinvígi eða 23,1 að meðaltali í leik. Þar munar mikið um hinn 193 sentímetra háa Rudy Gestede sem hefur unnið 6,2 skallaeinvígi í leik.

West Bromwich Albion er grófasta lið deildarinnar en liðið hefur fengið 43 gul spjöld og þrjú rauð spjöld á leiktíðinni. Liðsfélagarnir Claudio Yacob og Chris Brunt hafa fengið saman þrettán gul spjöld.  

Jürgen Klopp lætur sína menn í Liverpool hamast inn á vellinum og Liverpool er bæði það lið sem hleypur mest og tæklar mest í deildinni. Leikmenn Liverpool hafa náð 23,1 tæklingu að meðaltali í leik.

Topplið Leicester City er aftur á móti það lið þar sem varnarmennirnir verja flest skot, hreinsa oftast frá og vinna oftast boltann. Samanlagt kallast þetta varnar-inngrip og þar er enginn afkastameiri en N'Golo Kante með 11,1 varnarinngrip að meðaltali í leik.

Manchester City er aftur á móti mest skapandi lið deildarinnar því ekkert lið gefur fleiri lykilsendingar (13,7) sem eru sendingar sem skapa skotfæri eða skýtur oftar að marki (17,5 skot í leik).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×