Innlent

RÚVarar sauma að Eggerti Skúlasyni

Jakob Bjarnar skrifar
Eggert sagður fara með rangt mál og dylgjur en ritstjórinn gefur sig ekki og harðneitar að biðjast afsökunar á skrifum sínum.
Eggert sagður fara með rangt mál og dylgjur en ritstjórinn gefur sig ekki og harðneitar að biðjast afsökunar á skrifum sínum.
Sunna Valgerðardóttir, fyrrum fréttamaður á fréttastofu RÚV, nú á Kjarnanum, vandar Eggerti Skúlasyni ritstjóra DV ekki kveðjurnar í færslu á Facebooksíðu sinni.

Tilefni eru leiðaraskrif Eggerts þar sem hann telur að leiða megi að því líkur að símaviðtal sem Sunna tók við Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra í Reykjavík, 22. nóvember 2014, hafi verið að lögreglustjóranum forspurðum, tekið í leyni.

„Einkennilegasta dæmið í þessum fjölmiðlafarsa er viðtal sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu tók við Sigríði síðasta vetur og var það viðtal hlutdrægt, ósanngjarnt og leiða má líkur að því að viðmælandinn – lögreglustjórinn – hafi ekki áttað sig á að hún væri í viðtali. Svoleiðis gera fréttamenn ekki. Þetta viðtal fékk gamla ljósvakafréttamenn til að roðna vegna vinnubragðanna og að RÚV skyldi yfir höfuð senda þetta út í fréttatíma,” skrifar Eggert í leiðara sinn.

Er alveg vonlaust að segja „sorry“?

Sunna vísar þessu alfarið á bug og gott betur. Hún segist hafa farið ítarlega yfir viðtalið við lögreglustjóra fyrir birtingu, bæði spurningar og svör.

Fjölmargir læka færslu Sunnu, þar af margir fjölmiðlamenn. Eggert svarar á Facebookvegg Sunnu og þá ekki til að biðjast afsökunar á skrifum sínum, nema síður sé:

„Já hún er mismikil helgislepjan og ekki sama hver á í hlut. Varst þú Sunna Valgerðardóttir ekki að vinna hjá miðlinum sem spurði mig hvort ég væri framsóknarmaður, þegar ég tók við starfi sem ritstjóri á DV. Það eru náttúrulega ekki dylgjur. Mín upplifun af þessu viðtali sem hlustandi á útvarp, var einföld. Óboðlegt,“ skrifar Eggert kokhraustur og ekki eins og hann sé í kröppum dansi.

En, þá og þar með er sem stífla bresti og þolinmæði RÚVara gagnvart Eggerti er úti. Helgi Seljan leggur orð í belg og segir: „Eggert. Ég heiti Helgi Seljan. Hættu að uppnefna mig. Af hverju var viðtalið óboðlegt? Er alveg vonlaust mál að þú segir bara Sorry?“

Þverskallast við og neitar að biðjast afsökunar

„Kolbeinn Óttarsson Proppé blaðamaður og unnusti Sunnu útskýrir að þetta snúist ekki um upplifun Eggerts.

„Þetta er allt gott og blessað, Eggert,  eða þannig. Málið er bara að þú ert ekkert að lýsa upplifun þinni í leiðaranum. Þú segir orðrétt: "...og leiða má líkur að því að viðmælandinn – lögreglustjórinn – hafi ekki áttað sig á að hún væri í viðtali."  Þetta orðasamband þýðir að færa rök fyrir e-u eða sýna fram á að eitthvað sé líklegt. Það hefur bara nákvæmlega ekkert með upplifunina, sem þú klifar á, að gera. Og nú veistu betur, þú veist að þessi rök sem þú þóttist geta fært fyrir því að lögreglustjórinn hafi ekki áttað sig á því að hann væri í viðtali standast ekki og þú veist að það er ekki líklegt að Sigríður hafi ekki vitað það. Samt þverskallastu við að grafa þig dýpra og dýpra, í staðinn fyrir að standa keikur og segja: Ég hafði rangt fyrir mér.“

Frétt sem Eggert segir ómaklegar; þegar hann þurfti að þvo hendur sínar í frétt RÚV, af þeim stimpli að vera sagður Framsóknarmaður.
Brynjólfur Þór Guðmundsson fréttamaður hjá RÚV bætir í: „Helgislepja að gera greinarmun á réttu og röngu, Eggert? Það er skrýtið viðhorf hjá ritstjóra. Orð þín í leiðaranum eiga ekkert skylt við viðtalið. Þú dylgjar og ert ber að því að bulla eintóma vitleysu um það sem þú veist ekkert um. Alvöru menn svara ábendingum um slíkt ekki ekki með útúrsnúningum heldur afsökunarbeiðnum.“

Hvar er sanngirnin?

Og Heiðar Örn Sigurfinnsson fréttamaður á RÚV spyr: „Átti ekki að innleiða orðið „sanngirni“ á DV með ráðningu nýja ritstjórans?“ og hann vísar í frétt RÚV þar sem Eggert er í viðtali og boðar nýja og breytta hætti á DV, nú þegar hann er kominn við stjórnvölinn.

En, Eggert lætur sér ekki segjast: „Það Heiðar Örn Sigurfinnsson er einmitt það sem við höfum gert. Með þessari deilingu þinni ert þú enn á ný að bregðast því hlutverki sem þér hefur verið falið með ráðningu sem ríkisfjölmiðlamaður. Stendur þetta orð eitthvað í ykkur kannski?“

Og Heiðar Örn svarar:

„Ég er annars vegar búinn að deila fréttinni sem þú kallaðir dylgjur hér að ofan. Nú getur hver og einn lesið fréttina og velt því fyrir sér hvort þar sé um dylgjur af hálfu RÚV að ræða eða ekki. En það er aukaatriði. Aðalatriðið er, hins vegar, leiðarinn sem þú skrifaðir og sakaðir kollega um óverjandi vinnubrögð - án þess þó að hafa nokkra forsendu fyrir því. Það finnst mér ekki vera í anda þeirrar sanngirni sem mér skildist að ætti að innleiða í ritstjórnarstefnuna.“

En, Eggert gefur sig ekki, engin afsökunarbeiðni er í boði frá ritstjóranum sem segir „Þetta eru merkilegar umræður og gaman að sjá hverjir tjá sig hér og með hvaða hætti.“

Eggert Skúlason, ritstjóri DV, ber mig ansi þungum sökum í leiðara sínum í dag. Leiðarinn ber heitið 'Hún eða þeir” og...

Posted by Sunna Valgerðardóttir on 2. febrúar 2016



Fleiri fréttir

Sjá meira


×