Innlent

Krafa um að flýta landsfundi Samfylkingar hávær

Sveinn Arnarsson skrifar
Flokksfélagar á Akureyri vilja álykta gegn sitjandi stjórn
Flokksfélagar á Akureyri vilja álykta gegn sitjandi stjórn
Samfylkingin á Akureyri hefur boðað til félagsfundar í kvöld vegna stöðunnar í flokknum. Kannanir hafa mælt flokkinn undir tíu prósenta fylgi í nokkurn tíma og er hljóðið þungt meðal Samfylkingarfólks. Lögð verður fram bókun á fundinum um að flýta aðalfundi svo hægt verði að kjósa nýjan formann í flokknum.

Ólína Þorvarðardóttir, þingkona Samfylkingar í Norðvesturkjördæmi, lét hafa eftir sér í gær að staða flokksins væri ótæk og það þyrfti að flýta fundi fram í maí. Björk Vilhelmsdóttir, fyrrum borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík, og Össur Skarphéðinsson, fyrrum formaður flokksins, hafa viðrað þá skoðun að sameina félagshyggjuöfl á vinstri vængnum svo þau megi ná vopnum sínum á ný.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins eru margir orðnir þreyttir á stöðu flokksins og vilja breytingar. Þær raddir heyrist jafnt úr þingflokk og framkvæmdastjórn eins og úr grasrót flokksins.

Árni Páll Árnason
Í ályktun sem lögð verður fyrir félagsfund á Akureyri í kvöld segir að núverandi forysta hafi ekki tekist að skapa traust kjósenda á flokknum og því þurfi að flýta landsfundi og boða til allsherjar­atkvæðagreiðslu um formann flokksins. „Í stöðu eins og nú er uppi verða almennir flokksmenn að láta til sín taka þegar forystunni hefur mistekist að halda baráttumálunum á lofti og knýja fram nauðsynlegar þjóðfélagsbreytingar fyrir almenning á Íslandi,“ segir í drögunum að ályktuninni.

Árni Páll Árnason, formaður flokksins, segir það ekki í hans valdi að boða til landsfundar. Það sé í höndum stofnana flokksins að boða til fundar og þar með atkvæðagreiðslu um formann flokksins. „Ég hef sagt það að ég mun ekki standa í vegi fyrir því að landsfundi verði flýtt og er tilbúinn í formannskosningu hvenær sem er,“ segir Árni Páll.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×