Innlent

Lögreglustjóri neitar að tjá sig um ágreining Eggerts og Sunnu

Jakob Bjarnar skrifar
Lögreglustjóri neitar að höggva á hnútinn og deilur þeirra Sunnu og Eggerts flokkast því sem stendur undir óleyst sakamál.
Lögreglustjóri neitar að höggva á hnútinn og deilur þeirra Sunnu og Eggerts flokkast því sem stendur undir óleyst sakamál.
Upp er risinn dularfullur ágreiningur milli fjölmiðlafólksins Eggerts Skúlasonar ritstjóra DV og Sunnu Valgerðardóttur, fyrrverandi fréttamanns á RÚV, nú á Kjarnanum. Eggert slær fram því mati sínu í leiðara að viðtal sem Sunna tók við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra í Reykjavík, 22. nóvember 2014 hafi verið að Sigríði Björk forspurðri, nánast tekið í leyni og birt til að koma á hana höggi.

Sunna vísar þessu alfarið á bug og segir meira að segja að viðtalið hafi verið borið undir lögreglustjóra áður en til birtingar kom.

Vísir fjallaði um málið í gær, en þá sóttu RÚVarar hart að Eggerti ritstjóra sem gaf sig hvergi.

Eggert harðneitar að draga orð sín til baka og/eða biðja Sunnu velvirðingar og því standa orð gegn orði. Til að höggva á þennan hnút taldi Vísir eðlilegast að spyrja Sigríði Björk sjálfa hreint út, til að fá úr þessu skorið; hvernig staðið hafi verið að viðtalinu?

En, nú ber svo við að lögreglustjóri neitar að upplýsa málið. „Ég ætla ekki að tjá mig um þetta, ég ætla ekki að blanda mér í þetta og vil ekki fara meira í þetta mál en orðið er.“

En, er ekki rétt að þú höggvir á þennan hnút og leysir málið?

„Nei. Ég ætla ekki í deilur við þetta fjölmiðlafólk. Ég hef ekki neina stöðu til þess, ég ætla ekki að blanda mér í þetta og málið verður bara að fá að vera óleyst.“

Staðan er því sú sem stendur að málið flokkast sem óleyst sakamál en ásakanir Eggerts á hendur Sunnu eru ekki léttvægar og ef rangar reynast hljóta þær að teljast brot á siðareglum blaðamanna, en í umræddum leiðara segir meðal annars:

„Einkennilegasta dæmið í þessum fjölmiðlafarsa er viðtal sem fréttamaður á Ríkisútvarpinu tók við Sigríði síðasta vetur og var það viðtal hlutdrægt, ósanngjarnt og leiða má líkur að því að viðmælandinn – lögreglustjórinn – hafi ekki áttað sig á að hún væri í viðtali. Svoleiðis gera fréttamenn ekki. Þetta viðtal fékk gamla ljósvakafréttamenn til að roðna vegna vinnubragðanna og að RÚV skyldi yfir höfuð senda þetta út í fréttatíma.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×