Íslenski boltinn

Sandra María lánuð til Þýskalands

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Sandra María og Jóhann þjálfari.
Sandra María og Jóhann þjálfari. vísir/auðunn
Landsliðsframherjinn Sandra María Jessen hjá Þór/KA er á leiðinni til þýska liðsins Bayer Leverkusen.

Hún verður lánuð til félagsins en kemur aftur til Akureyrar 1. maí og verður því klár í slaginn er Pepsi-deild kvenna hefst.

„Við kynntumst ágætlega í haust þegar Sandra María og Lillý Rut Hlynsdóttir æfðu í rúma viku með liðinu. Ég fór með þeim og fékk að vera á öxlinni á þjálfaranum. Þeir vita því nákvæmlega hvað hún getur og við vorum sammála um að þetta myndi hjálpa öllum aðilum,“ sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA við heimasíðu Þórs.

„Við teljum að þetta sé ákveðin lyftistöng fyrir félagið okkar og gott fordæmi fyrir unga og efnilega leikmenn hjá okkur. Að með mikilli vinnu og fórnfýsi þá séu mönnum allir vegir færir í þessu. Sandra fer nú og leikur sem atvinnumaður í nokkra mánuði með liði í einni af sterkustu deildum heimsins og er því að uppskera ansi vel eftir að hafa lagt mikið á sig bæði innan og utan vallar með sínu liði,“ bætir Jóhann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×