Viðskipti innlent

Icelandair hefur áætlunarflug til Orly flugvallar í París

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
 Icelandair hefur boðið upp á flug til og frá París um Charles De Gaulle flugvöllinn, en mun nú bjóða upp á flug á báða vellina.
Icelandair hefur boðið upp á flug til og frá París um Charles De Gaulle flugvöllinn, en mun nú bjóða upp á flug á báða vellina. Vísir/Vilhelm
Icelandair hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Orly flugvallarins í París og verður fyrsta flugið 28. mars eða eftir tæpa tvo mánuði.

„Orly flugvöllurinn er mjög eftirsóttur af flugfélögum og langur biðlisti eftir því að komast þar að. Þaðan eru mjög góðar tengingar innan Frakklands og til nágrannalanda í Suður-Evrópu, en lítið framboð af flugi til Norður-Ameríku. Orly býður því upp á spennandi tækifæri fyrir okkur og er kærkomin viðbót í leiðakerfi Icelandair,“ segir Birkir Hólm Guðnason, framkvæmdastjóri Icelandair, í tilkynningu til fjölmiðla.

Orly verður 27. áfangastaður Icelandair í Evrópu, auk þess sem félagið flýgur til 16 áfangastaða í Norður-Ameríku. Orly er fjórði nýi áfangastaðurinn á þessu ári, en Icelandair mun hefja flug til Aberdeen, Chicago og Montreal í vor.

Icelandair mun í sumar bjóða upp á 23 flug í viku til Parísar í sumar, 17 flug (2-3 á dag) til Charles De Gaulle og allt að 6 sinnum á viku til Orly.

„Það er líka ánægjulegt að geta boðið upp á aukið framboð til Frakklands nú þegar áhuginn á EM í fótbolta fer stöðugt vaxandi,“ segir Birkir.

Á þessu ári eru 40 ár frá því Icelandair hóf flug til Parísar. Lengi framan af var einmitt flogið á Orly flugvöllinn sem var aðal flugvöllur Frakklands áður en Charles De Gaulle var byggður á áttunda áratug síðustu aldar. Tæplega 30 milljón farþegar fara um Orly árlega og er völlurinn sá 13 stærsti í Evrópu. Hann er í suðurhluta borgarinnar, þykir þægilegur fyrir viðskiptavini og tengist mjög vel innlandssamgöngum í Frakklandi að því er segir í tilkynningunni frá Icelandair.

Auk flugsins til Orly mun Icelandair auka tíðni á nokkra aðra áfangastaði beggja vegna Atlantshafsins og mun bæta við einni Boeing 757 farþegaþotu í sumar og verður með 25 vélar af Boeing 757 gerð og 2 Boeing 767 breiðþotur í flugflotanum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×