Innlent

Réðst á verðandi eiginkonu sína fyrir framan barnungar dætur hennar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Maðurinn játaði brot sitt fyrir dómi. Myndin er sviðsett.
Maðurinn játaði brot sitt fyrir dómi. Myndin er sviðsett. Vísir/Getty

Karlmaður á Austurlandi hefur verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína, sem nú er eiginkona hans, á heimili þeirra að viðstöddum dætrum ákærðu.

Ákæra var gefin út á hendur manninum af lögreglustjóranum á Austurlandi í desember en manninum var gefið að sök að hafa slegið konuna nokkur högg með flötum lófa í fæturna þar sem hún lá á dýnu á gólfinu og svo slegið hana tveimur hnefahöggum og einu höggi með flötum lófa í höfuðið en þá lá hún í rúmi í svefnherberginu.

Líkamlegar afleiðingarnar voru þær að konan hlaut kúlu á hægra gagnauga, mar á hægri kjálka, bólgu og mar á hægri sköflung, mar og eymsli á hægri úlnlið og bólgu og mar á vinstri vísafingur. Maðurinn játaði brot sitt skýlaust fyrir dómi.

Bar við afbrýðissemi án frekari útskýringa
Í ákærunni kemur fram að dætur konunnar á barnsaldri hafi orðið vitni að líkamsárásinni. Maðurinn var ölvaður og neitaði því ekki að hafa ráðist á konuna þótt hann bæri við minnisleysi sökum ölvunar. Hann kvaðst muna eftir því að hafa eyðilagt sjónvarp á heimilinu og bar við afbrýðissemi án þess að gefa frekari skýringar á því.

Við þingfestingu málsins mætti ákærði í fylgd konunnar og upplýstu þau að þau hefðu nýlega gengið í hjúskap. Þau höfðu verið í sambúð þegar maðurinn réðst á konuna.

Í dómi Héraðsdóms Austurlands segir að maðurinn hafi ekki áður gerst sekur um refsivert brot. Við ákvöðun refsingar hafi einkum verið litið til þess að brotið var framið á heimili þeirra, í viðurvist barnungra dætra hennar. Svo virðist sem hún hafi verið af litlu sem engu tilefni.

Þá segir að sú staðreynd að þau hafi gift sig síðan árásin átti sér stað breyti engu um ákvörðun refsingarinnar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira