Innlent

Sakar lögreglustjóra um að fara með rangt mál

Jakob Bjarnar skrifar
Sunna telur tölvupóst Sigríðar Bjarkar engan veginn fá staðist skoðun, sem þýðir þá að Sunna telur lögreglustjóra fara með rangt mál.
Sunna telur tölvupóst Sigríðar Bjarkar engan veginn fá staðist skoðun, sem þýðir þá að Sunna telur lögreglustjóra fara með rangt mál.

„Sigríði Björk var því fullljóst að þarna væri hún sjálf að tala, enda textinn í fyrstu persónu og um hennar feril,“ segir Sunna Valgerðardóttir blaðamaður og fyrrum fréttamaður á RÚV.

Sunna hefur skrifað færslu á Facebooksíðu sína þar sem hún fer yfir umdeilt mál sem Vísir hefur fjallað um í dag og í gær, eins og það horfir við sér. Málið fjallar um ágreining milli Eggerts Skúlasonar og Sunnu, en Eggert hefur fordæmt viðtal sem Sunna tók við lögreglustjóra og birtist í fréttatíma RÚV 22. nóvember 2014.

Nýjasta í málinu var að Eggert Skúlason birti tölvupóst frá Sigríði Björk Guðjónsdóttur til sín, þar sem lögreglustjórinn segist ekki hafa vitað að verið væri að hljóðrita „viðtal“ við sig af Sunnu.

Vísir greindi frá hér.

Samkvæmt Sunnu fær þetta engan veginn staðist, það að lögreglustjóra hafi ekki verið kunnugt um að verið væri að taka viðtalið upp, eins og sjá má á færslu hennar sem fer hér á eftir. Með öðrum orðum segir blaðamaður lögreglustjóra fara með rangt mál.

Samkvæmt heimildum Vísis verður fundað sérstaklega um þetta mál meðal yfirmanna á fréttastofu RÚV, en beðið er þess að Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri komi til landsins en hún er nú stödd erlendis.

Facebook-færsla Sunnu
„Að morgni 22. nóvember 2014 tók ég viðtal við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, fyrir hádegisfréttir RÚV í útvarpi. Viðtalið snerist um aðkomu Sigríðar Bjarkar að lekamálinu og Gísla Frey Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, fyrrverandi innanríkisráðherra, sem hafði sagt sig frá embætti deginum áður.

Ég hringdi í Sigríði Björk úr gemsanum mínum um morguninn til að biðja hana um viðtal. Hún varð við því. Ég skellti á og færði mig inn í upptökuver þar sem ég hringdi úr upptökusíma stúdíósins aftur í hana. Hófst þá viðtalið, sem stóð í rúmar 20 mínútur.

Ég er búin að hlusta á upptöku af viðtalinu. Í lok viðtalsins tilkynnti ég Sigríði Björk að ég mundi nú hlusta á viðtalið, velja úr því það sem mér fannst svara spurningum mínum best og heyra svo aftur í henni fyrir hádegisfréttir til að láta hana vita hvað ég mundi velja úr, enda hafði Sigríður Björk sett það sem skilyrði fyrir viðtalinu í símtalinu við mig áður en ég fór í stúdíóið. Hún meðtók það og sagði að það væri ágætt að sín rödd heyrðist líka í þessu máli.

Þegar ég var búin að klippa viðtalið við lögreglustjóra niður í rúmar fjórar mínútur, og skrifa það upp, hringdi ég aftur í hana og las handritið fyrir hana. Hún var sátt með það og tók fram að niðurlagið í viðtalinu hafi verið sérstaklega gott, þar sem hún sagði, og ég las upp fyrir hana: „Það er bara verið að stilla þessu svona upp eftir á. Ég er með átján ára flekklausan feril. Þið eruð að draga mig niður sko. Ég hef ekkert gert. Ég sendi umbeðin gögn til nýs ráðherra eða ráðuneytis sem er minn yfirmaður þannig að það er nú bara staðan í málinu.“ Sigríði Björk var því fullljóst að þarna væri hún sjálf að tala, enda textinn í fyrstu persónu og um hennar feril.

Eins og Eggert Skúlason, ritstjóri DV, sýnir fram á í tölvupósti frá Sigríði Björk sem hann birtir á Facebook síðu sinni, heldur hún því fram að hún hafi ekki vitað að hún væri á upptöku og að ég hafi spilað viðtalið frá upphafi til enda án hennar leyfis.  Hádegisfréttatími RÚV hefði ekki rúmað allt viðtalið, sem var, eins og áður segir, rúmar 20 mínútur. Hún sendi mér sama tölvupóst þegar ég bað hana um svör í morgun.

Svo má líka benda á að lögreglustjórinn hefur nú haft rúma 14 mánuði til að koma þessum athugasemdum sínum á framfæri. Það gerði hún ekki eftir hádegisfréttatímann 22. nóvember 2014 og ég hef engar efnislegar athugasemdir fengið vegna þessa viðtals fyrr en í leiðara ritstjórans í gær.“

Að morgni 22. nóvember 2014 tók ég viðtal við Sigríði Björk Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, fyrir há...

Posted by Sunna Valgerðardóttir on 3. febrúar 2016

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira