Innlent

Landsfundi og formannskjöri að öllum líkindum flýtt

Heimir Már Pétursson skrifar

Miklar líkur eru á að landsfundi og formannskjöri í Samfylkingunni verði flýtt vegna þrýstings á breytingar í flokknum eftir slakt gengi í könnunum undanfarin misseri. Stjórn flokksins kemur saman á morgun til að ræða málið.

Þingflokkur Samfylkingarinnar fjallaði um tilvistar- eða forystuvanda flokksins á reglulegum fundi sínum í dag. Árni Páll Árnason formaður flokksins var ekki viðstaddur fundinn. En það er að heyra á þingmönnum að þeir styðji það að landsfundi og þar með formannskjöri verði flýtt.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir stakk á blöðru sem verið hefur að stækka innan flokksins að undanförnu í fréttum okkar í gær þegar hún sagðist ekki geta hugsað framtíð flokksins til enda yrði landsfundi og formannskjöri ekki flýtt.

Ertu sammála henni um að landsfundi og um leið formannskjöri verði flýtt?
„Ég held að það sé nú almennur vilji til að reyna sem fyrst að eyða allri óvissu í þessum efnum. Svona meðan það er í samræmi við lög flokksins og um það getur skapast góð samstaða. Ég bind bara góðar vonir við náum sameiginlegri niðurstöðu um það mjög fljótlega,“ sagði Helgi Hjörvar þingflokksformaður að loknum fundi í dag.

Stjórn flokksins kemur saman strax á morgun til að ræða málin. En Samkvæmt lögum flokksins er forysta hans kosin til tveggja ára á landsfundi og ekki er hægt að kjósa nýja forystu á aukalandsfundi nema mikið liggi við, eins og t.d. þingrof.

„Ég held að menn hljóti að leita allra leið til að finna niðurstöðu sem bæði eyðir óvissu og og sem allra breiðust samstaða getur tekist um. Ég held að formaðurinn muni leiða okkur í þeirri vinnu,“ segir Helgi.

Katrín Júlíusdóttir varaformaður flokksins segir Samfylkinguna hafa legið of lengi í litlu fylgi.

„Og það er ekkert óeðlilegt að þá horfi flokksmenn til þess að það þurfi að gera einhverja breytingu og við þurfum  einhvers konar nýtt upphaf. Ég skil þess vegna kröfuna mjög vel í því ljósi,“ segir Katrín.

Þetta sé ekki bara rætt í þingflokknum heldur vítt og breitt í stofnunum flokksins og sé ekki bara vandi samfylkingarinnar. Margir aðrir flokkar séu í svipaðri stöðu og jafnvel við að þurrkast út.

„Þó varar maður auðvitað við því að það sé einhver ein töfralausn að til í því að skipta bara um einn karl í brúnni. Eða hvernig sem fólk hugsar það. Það er fleira sem þarf að koma til,“ segir Katrín. Krafa um landsfund sé skiljanleg á svona tímum.

Katrín og Helgi hafa bæði verið nefnd af fjölmörgu áhrifafólki innan flokksins sem fréttastofa hefur rætt við sem líklegir formannsframbjóðendur.

Þú sjálf, værir þú til í að bjóða þig fram til formennsku?
„Ég hef ekki tekið neina ákvörðun um það og það verður bara skoðað þegar fram líða stundir,“ segir varaformaðurinn.

„Það hefur enginn beðið mig um það. Ég held að við hljótum nú að fylkja okkur að baki þess formanns sem að er meðan hann er formaður. Ef það verða einhverjar breytingar á því ræða menn það þegar þar að kemur,“ segir Helgi Hjörvar.


Tengdar fréttir

Krafa um að flýta landsfundi Samfylkingar hávær

Samfylkingin á Akureyri hefur boðað til félagsfundar í kvöld vegna stöðunnar í flokknum. Kannanir hafa mælt flokkinn undir tíu prósenta fylgi í nokkurn tíma og er hljóðið þungt meðal Samfylkingarfólks. Lögð verður fram bókun á fundinum um að flýta aðalfundi svo hægt verði að kjósa nýjan formann í flokknum.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira