Innlent

Minnstur stuðningur við flugvöll í Vatnsmýri hjá yngsta fólkinu

Heimir Már Pétursson skrifar
Meirihluti landsmanna er hlynntur því að Reykjavíkurflugvöllur verði áfram í Vatnsmýri en töluvert hefur dregið úr stuðningi við staðsetninguna miðað við fyrri könnun Maskínu. Kjósendur Framsóknarflokksins eru dyggastir í stuðningi sínum en stuðningurinn er minnstur hjá yngsta aldurshópnum.

Rannsóknarfyrirtækið Maskína spurði dagana 15. til 26. Janúar hversu hlynnt eða andvígt fólk væri því að framtíðarstaðsetning Reykjavíkurflugvallar í Vatnsmýri. Fimmtíu prósent úrtaksins svöruðu eða 847 manns.

Tæp 59 prósent landsmanna eru hlynnt núverandi staðsetningu en 22 prósent andvíg en rúm 19 prósent eru í meðallagi. Þetta er ríflegur meirihluti en þó minni en árið 2013 þegar Maskína spurði sömu spurningar síðast og 72 prósent voru hlynnt núverandi staðsetningu.

„Það eru töluvert enn þá fleiri sem vilja halda flugvellinum þar sem hann er, það liggur alveg ljóst fyrir miðað við þessa könnun. Það er í samræmi við það sem við höfum verið að halda fram,“ segir Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, oddviti Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórn um málið.

Lítil sem enginn munur er á afstöðu kynjanna til framtíðar flugvallarins.

En sú breyting hefur orðið að stuðningur yngsta aldurshópsins er mun minni en annarra aldurshópa, eða 32 prósent og stór hluti þeirra er óákveðinn. Í fyrri könnun var lítill munur á aldurshópunum en nú eykst stuðningur við flugvöllinn eftir því sem fólk eldist.

„Svo getur verið að spila inn í hjá unga fólkinu, það er öll þessi umræða um lóðaskort í Reykjavík, að unga fólkið, sem samkvæmt könnunum vill búa í hundrað og einum, en vegna þess hversu dýrt húsnæðið hérna er þá sjái það valkost í þessu svæði. Þar af leiðandi sé það fylgjandi því að flugvöllurinn fari,“ segir Guðfinna.

Áberandi mikill munur er á stuðningi við flugvöll í Vatnsmýri eftir stuðningi fólks við flokka. Mestur er stuðningurinn meðal framsóknarmanna eða 93 prósent og 78 prósent meðal sjálfstæðismanna en andstaðan er mest meðal kjósenda Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar, eða 45 til rúmlega 51 prósent.

Þá kemur ekki á óvart að stuðningur við veru flugvallarins er minnstur á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni vilja 71 prósent flugvöllinn þar sem hann er.

Heiða Kristín Helgadóttir, varaþingmaður Bjartrar framtíðar, var spurð út í niðurstöðu könnunarinnar en hún sagði stuðninginn við veru flugvallarins í Vatnsmýri vera að breytast.  Fyrir einhverjum árum síðar var hann mun sterkari í þá átt að flugvöllurinn ætti að vera hér. En mér finnst það mjög eðlilegt þegar stjórnmálamönnum, sérstaklega á Alþingi og í ríkisstjórn, hefur ekki tekist að stilla neinum valkostum upp í stöðunni,“ sagði Heiða í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Spurð út í Hvassahraun sagði hún þá staðsetningu eiga að vera í umræðunni sem raunverulegur kostur undir flugvöll. „Og eins líka að klára skoðun á Keflavíkurflugvelli alfarið en auðvitað er fólk ekki að fara að fylkja sér á bak við eitthvað sem það veit ekki hvað er. Mér finnst ekkert óeðlilegt að þessi stuðningur sé enn þá með þessum hætti. Ég verð bara að lýsa ábyrgð á ríkisstjórn og Alþingi í þeim efnum því Reykjavíkurborg hefur samþykkt aðalskipulag sem gerir ráð fyrir að flugvöllurinn fari héðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×