Körfubolti

Helena og Haukakonur í ham í lokin og stöðvuðu sigurgöngu litlu systur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helena Sverrisdóttir fagnaði sigri á móti litlu systur Guðbjörgu Sverrisdóttur.
Helena Sverrisdóttir fagnaði sigri á móti litlu systur Guðbjörgu Sverrisdóttur. Vísir/Anton

Helena Sverrisdóttir hafði enn á ný betur gegn litlu systur sinni en Haukakonur þurftu á frábærum fjórða leikhluta að halda til að landa sigri á móti Val í kvöld.

Haukakonur skoraði tíu stig í röð á lokakafla leiksins og tryggðu sér sex stiga sigur, 73-67, með því að vinna lokaleikhlutann 21-9.

Valsliðið var búið að vinna fjóra leiki í röð og var átta stigum yfir þegar aðeins níu mínútur voru eftir af leiknum.

Helena Sverrisdóttir var með 26 stig, 14 fráköst og 5 stoðsendingar í fjórða sigrinum í vetur á móti litlu systur sinni Guðbjörgu Sverrisdóttur í Val. Guðbjörg var með 7 stig, 10 fráköst og 3 stoðsendingar. Helena skoraði 19 af 26 stigum sínum í seinni hálfleiknum.

Karisma Chapman var Haukaliðinu erfið með 26 stig og 15 fráköst en Chelsie Alexa Schweers var næststigahæst hjá Haukum með 14 stig.

Valskonur byrjuðu vel og voru skrefinu á undan í fyrsta leikhlutanum, komust í 5-0 og 11-5. Haukaliðið jafnaði metin þegar á leið leikhlutann.

Haukakonur voru einu stigi yfir eftir fyrsta leikhlutann, 25-24, eftir að Helena Sverrisdóttir skoraði þriggja stiga körfu rétt fyrir lok hans.

Haukaliðið var komið með sex stiga forskot í öðrum leikhlutanum, 34-28, en gestirnir af Hlíðarenda ætluðu ekki að gefa neitt.

Valskonur skoruðu sex síðustu stig fyrri hálfleiksins og breyttu stöðunni úr 37-35 fyrir Hauka í 41-37 fyrir Val sem voru hálfleikstölurnar.

Valsliðið var sex sigum yfir, 51-45, þegar fjórar mínútur voru eftir af þriðja leikhlutanum en Helena Sverrisdóttir svaraði þá með fimm stigum í röð og munurinn var aftur eitt stig.

Valskonur áttu hinsvegar lokaorðið fyrir lok þriðja leikhlutans og voru sex stigum yfir, 58-52, fyrir lokaleikhlutann.

Valur komst mest átta stigum yfir, 60-52, í upphafi fjórða leikhlutans en Haukakonur áttu frábæran fjórða leikhluta og unnu síðustu níu mínútur leiksins 21-7.

Haukakonur gerðu endanlega út um leikinn með því að breyta stöðunni úr 61-65 fyrir Val í 71-65 með því að skora tíu stig í röð.


Haukar-Valur 73-67 (25-24, 14-17, 13-17, 21-9)

Haukar: Helena Sverrisdóttir 26/14 fráköst/5 stoðsendingar, Chelsie Alexa Schweers 14/4 fráköst/5 stoðsendingar, Auður Íris Ólafsdóttir 8/5 fráköst, Sólrún Inga Gísladóttir 6, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 6, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 5/7 fráköst/5 varin skot, Dýrfinna Arnardóttir 3, Pálína María Gunnlaugsdóttir 3/4 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 2.

Valur: Karisma Chapman 26/15 fráköst, Bergþóra Holton Tómasdóttir 12/5 fráköst, Hallveig Jónsdóttir 9/7 stoðsendingar, Guðbjörg Sverrisdóttir 7/10 fráköst, Ragnheiður Benónísdóttir 6/5 fráköst, Dagbjört Samúelsdóttir 4, Margrét Ósk Einarsdóttir 3.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira