Innlent

Mikilvægt að haldið sé rétt á spilunum til að lágmarka skaðleg áhrif

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Frá undirritun samkomulags SALEK-hópsins í október í fyrra.
Frá undirritun samkomulags SALEK-hópsins í október í fyrra. vísir/pjetur

Nýgerður kjarasamningur Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins, sem byggir á SALEK rammasamkomulaginu frá því í október, er dýr og því mikilvægt að haldið sé mjög vel á spilunum í hagstjórn til að lágmarka skaðleg áhrif eftir fremsta megni. Líkur á aukinni verðbólgu hafa eflaust aukist með þessum samningi, en hann mun væntanlega líka leiða til minni óvissu í hagkerfinu sem er ekki síður mikilvægt.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri Hagsjá Landsbankans en þar segir jafnframt að mótvægisaðgerðir stjórnvalda skipti miklu máli og því mikilvægt að framkvæmd þeirra takist vel.

Friður á vinnumarkaði ekki ókeypis
Kjarasamningurinn á að gilda frá ársbyrjun 2016 og fram til ársloka 2018. Áður umsamdar launabreytingar á þessu ári eru færðar fram og muni gilda frá 1.janúar í stað 1.maí.

„Mikilvægt merki um nýja nálgun og ný vinnubrögð er að þessi samningur verður borinn upp til samþykktar í einni sameiginlegri atkvæðagreiðslu innan ASÍ. Það felur í sér að talið verður upp úr einum sameiginlegum potti í stað margra smærri,“ segir í Hagsjánni.

Þá segir að um sé að ræða dýran samning, enda sé friður á vinnumarkaði í þetta langan tíma ekki ókeypis. Samtök atvinnulífsins meti kostnaðaraukningu af þessum samningi, að meðtöldum auknum mótframlögum í lífeyrissjóði, sem sex prósent til viðbótar við þann eldri. Samtökin hafi fengið vilyrði fyrir mótvægisaðgerðum af hálfu stjórnvalda sem fyrst og fremst felist í lækkun tryggingagjalds.

„Stefnt virðist að því að tryggingagjald lækki um 0,5 prósentustig á þessu ári, sem gæti þýtt yfir fjögurra milljarða króna lækkun álaga á atvinnulífið,“ segir í Hagsjá. Stjórnvöld hafi þó ekki opinberað tillögur sínar um lækkun tryggingagjalds, en að líkleg niðurstaða sé talin að gjaldið lækki um 1,5 prósentustig á samningstímanum.

Erfitt að spá fyrir um afdrif húsnæðistillaga
Jafnframt kemur fram að húsnæðismálinu kunni að skipta máli. Af hálfu ASÍ hefur verið lögð áhersla á að ákvæði gildandi samninga um endurskoðun samningsforsenda í febrúar standi og að sérstaklega verði horft til efnda ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum sem hafi verið mikilvægar forsendur við gerð kjarasamninga á síðasta ári.

„Tillögur félagsmálaráðherra í húsnæðismálum eru umdeildar og erfitt að spá fyrir um afdrif þeirra. Samkvæmt yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá í fyrra átti t.d að ljúka byggingu 500 leiguíbúða á þessu ári og 2.300 alls á árunum 2016-2016. Augljóst virðist að ekki verður hægt að efna þá yfirlýsingu eins og hún var upphaflega gefin út. Þá stendur sú spurning eftir hversu mikla áherslu ASÍ leggur á að þessi yfirlýsing verði efnd og hvort þetta mál geti staðið í vegi fyrir samþykkt samningsins.“


Tengdar fréttir

Samningi landað við ríkið eftir 27 ára bið

Um miðjan mánuð kemur í ljós hvort samningar sem skrifað var undir í Karphúsinu aðfaranótt þriðjudags verði samþykktir. Verkfalli vélstjóra og skipstjórnarmanna var frestað og verkfalli flugvirkja hjá Samgöngustofu aflýst.
Fleiri fréttir

Sjá meira