Fótbolti

Sölvi Geir skiptir um lið í Kína

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir

Landsliðsmaðurinn Sölvi Geir Ottesen hefur yfirgefið Jiangsu Suning og gengið til liðs við B-deildarlið Wuhann Zall ef marka má fréttir frá Kína.

Wuhann Zall mun hafa tilkynnt að félagaskipti Sölva Geirs hafi gengið í gegn en á síðunni transfermarkt.com er fullyrt að kaupverðið sé 650 þúsund evrur, jafnvirði 92 milljóna króna.

Þar með eru báðir Íslendingarnir sem urðu bikarmeistarar með Jiangsu í haust farnir frá félaginu því Viðar Örn Kjartansson fór til Malmö fyrir stuttu síðan.

Hvert lið má aðeins vera með þrjá erlenda leikmenn í sínum röðum í Kína og ætlar Jiangsu sér stóra hluti á komandi leiktíð. Liðið keypti til að mynda Brasilíumanninn Ramires frá Chelsea nú í lok síðasta mánaðar.
Fleiri fréttir

Sjá meira