Enski boltinn

Hver af þessum sex verður kosinn besti leikmaður mánaðarins í enska boltanum?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roberto Firmino skoraði fjögur mörk fyrir Liverpool í janúar.
Roberto Firmino skoraði fjögur mörk fyrir Liverpool í janúar. Vísir/Getty

Sex leikmenn koma til greina sem besti leikmaður janúarmánaðar í ensku úrvalsdeildinni en Gylfi Þór Sigurðsson er ekki tilnefndur þrátt fyrir sinn besta mánuð í langan tíma.

Þeir sem koma til greina sem leikmaður fyrsta mánaðar ársins eru Sergio Aguero hjá Manchester City og  Roberto Firmino hjá Liverpool auk þeirra Dele Alli hjá Tottenham, Kasper Schmeichel hjá Leicester City, Virgil van Dijk hjá Southampton og Jermain Defoe hjá Sunderland.

Sergio Aguero hefur náð sér af meiðslunum og er búinn að vera fanta formi í fyrstu leikjum ársins. Hann var með fimm mörk og eina stoðsendingu í fjórum deildarleikjum.

Aguero fær mikla samkeppni frá Roberto Firmino sem skoraði tvennu á móti bæði Arsenal og Norwich og var alls með fjögur mörk og eina stoðsendingu í fjórum leikjum.

Kasper Schmeichel hélt þrisvar sinnum hreinu í fjórum leikjum Leicester City í mánuðinum og kemur til greina sem besti leikmaðurinn. Virgil van Dijk, varnarmaður Southampton, Jermain Defoe, framherji Sunderland og Dele Alli, miðjumaður Tottenham, eru einnig tilnefndir en þykja þó ekki líklegir til að hljóta hnossið.

Jamie Vardy (október og nóvember) hefur þegar verið tvisvar sinnum valinn besti leikmaður mánaðarins á tímabilinu en hann kemur ekki til greina nú. Hinir sem hafa fengið verðlaunin á þessari leiktíð eru þeir André Ayew hjá Swansea City (ágúst), Anthony Martial hjá Manchestet United (september) og Odion Ighalo hjá Watford (desember).

Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira