Handbolti

Rut átti þátt í fimm mörkum í eins marks sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Rut Jónsdóttir.
Rut Jónsdóttir. Vísir/Getty
Íslenska landsliðskonan Rut Jónsdóttir og félagar hennar í Randers HK fögnuðu sínum þriðja sigri í röð í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld.

Randers HK vann þá eins marks útisigur á SK Aarhus, 23-22, og komst fyrir vikið upp í þriðja sæti deildarinnar.

Rut Jónsdóttir skoraði tvö mörk í leiknum auk þess að gefa þrjár stoðsendingar á liðsfélaga sína. Rut nýtti 2 af 3 skotum sínum.

Camilla Dalby var markahæst í liði Randers HK með átta mörk en Clara Monti Danielsson skoraði fimm mörk.

Rut var með eitt mark og tvær stoðsendingar í fyrri hálfleiknum en Randers var með fjögurra marka forystu í hálfeik, 14-10. Camilla Dalby skoraði fimm af mörkum liðsins í fyrri hálfleiknum.

Rut skoraði fyrsta mark Randers í seinni hálfleiknum og kom liðinu með því í 15-11. Heimastúlkur komu sér síðan hægt og rólega inn í leikinn.

Leikmenn SK Aarhus náðu að minnka ítrekað í eitt mark í seinni hálfleiknum og jöfnuðu síðan metin í 21-21 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir.

Randers komst aftur tveimur mörkum yfir í 23-21 en leikmenn SK Aarhus minnkuðu muninn í eitt mark og gátu síðan jafnað metin.

Cecilie Greve varði hinsvegar lokaskot SK Aarhus og Randers tryggði sér sigurinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×