Innlent

Það versta afstaðið á Patreksfirði en bætir enn í snjóinn frameftir degi

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Rýmingarkort af Patreksfirði.
Rýmingarkort af Patreksfirði.

Mikið hefur dregið úr snjókomu á Patreksfirði en hættustig vegna snjóflóðahættu verður þó að öllum líkindum í gildi fram eftir degi þar sem áfram mun snjóa í bænum. Þetta segir Tómas Jóhannesson hjá snjóflóðavakt Veðurstofu Íslands.

Í gær voru sex hús í bænum rýmd og segir Tómas að rýmingunni verði væntanlega ekki aflétt fyrr en veðrið hefur gengið niður seinna í dag. Þó hafa vaktmenn fyrir vestan ekki orðið varir við að nein flóð hafi fallið á því svæði á Patreksfirði þar sem hús voru rýmd en menn hafi varann á.

„Það versta er afstaðið en það heldur áfram að bæta í snjóinn í dag. Þetta er mikil snjókoma miðað við þá úrkomu sem er vanalega þegar það snjóar en úrkoman síðan í gærkvöldi á Patreksfirði er komin í 50 millimetra og það bætir enn í mælinn,“ segir Tómas.

Hann segir að mun meira hafi snjóað á Patreksfirði og Tálknafirði en annars staðar á Vestfjörðum. Þannig hafi ekki verið mjög mikil úrkoma á norðanverðum Vestfjörðum en mikill skafrenningur og ófærð vegna veðurhæðar.
Þá segir Tómas að menn séu með varann á sér á Norðurlandi vegna snjóflóðahættu.

„Það er fyrst og fremst ákveðinn viðbúnaður í sambandi við vegi í Dalsmynni og Ljósavatnsskarði og svo hafa menn verið að ræða hættu á Ólafsfjarðarmúla og Siglufjarðarvegi en við höfum ekki séð nein flóð þar enn sem komið er. Þarna er þetta fyrst og fremst skafrenningur og veðurhæð sem menn hafa áhyggjur af að geti komið einhverju af stað.“

Einnig er fylgst með fjöllum á Austurlandi en mikil úrkoma var þar í gær og nótt en veðrið hefur nú gengið niður.

Sjá nánar um snjóflóðahættu á vef Veðurstofunnar.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira