Lífið

Þakklát fyrir líðandi stund

Gunnþóra Gunnarsdóttir skrifar
„Við erum 30 manns af tæplega 15 þjóðernum að útskrifast úr PLD-náminu,“ segir Hrafnhildur.
„Við erum 30 manns af tæplega 15 þjóðernum að útskrifast úr PLD-náminu,“ segir Hrafnhildur. Mynd/Úr einkasafni

„Þetta er frábær helgi. Að útskrifast með PLD-gráðu í stjórnun frá einum besta viðskiptaháskóla í heimi á síðasta degi sem ég er 39 ára, fljúga heim og fagna fertugsafmæli með fjölskyldunni og mínum nánustu er besta afmælisgjöfin,“ segir Hrafnhildur Hafsteinsdóttir verkefnastjóri glaðlega.

Skólinn sem hún talar um er IESE Business School. Hún hefur verið í fjarnámi í honum undanfarið ár með vinnu við verkefnastjórnun MBA-námsins í Háskólanum í Reykjavík, þar sem hún hefur starfað í átta ár.

Hún hefur líka unnið mikið sem markþjálfi eftir útskrift úr þeim fræðum árið 2014. „Það sem mér finnst svo heillandi við markþjálfun er að vinna með fólki og sjá markmið og drauma rætast,“ lýsir hún.

Hrafnhildur býr við Meðalfellsvatn í Kjós með manni sínum Bubba Morthens og dætrunum þremur, Ísabellu tíu ára, Dögun sex ára og Aþenu þriggja ára.
Nú stendur hún á tímamótum og lítur um öxl. „Ef það er eitthvað sem lífið hefur kennt mér þá er það að allt er breytingum háð. Það eru hamingjustundir og gleði en líka stundum erfiðir tímar. Það sem ég hef reynt að tileinka mér í lífinu er að vera til í núinu, þakklát fyrir líðandi stund og alla þá hversdagslegu litlu hluti sem maður tekur stundum sem sjálfsagðan hlut,“ segir hún.

Stærsta og besta gjöfin sem Hrafnhildur kveðst hafa fengið er að fá að vera mamma sólargeislanna í lífi sínu, Ísabellu, Dögunar og Aþenu. „Það er ekkert sem gleður mig meira en að fá að fylgjast með dætrunum vaxa og dafna og sjá kraftaverkin gerast í lífi þeirra.“
Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira