Körfubolti

Ginobili þurfti að fara í aðgerð á eista

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manu Ginobili.
Manu Ginobili. Vísir/Getty

San Antonio Spurs verður án Argentínumannsins Manu Ginobili næsta rúma mánuðinn eftir að hann meiddist á eista í leik á móti New Orleans Pelicans í vikunni.

Manu Ginobili gekkst undir aðgerð í gær og það gæti vel farið svo að hann verður lengur frá en í þennan eina mánuð.

Ginobili meiddist á þessum viðkvæma stað þegar hann hnéð á Ryan Anderson í klofið þegar 2:26 voru eftir að leik liðanna á miðvikudagskvöldið. Anderson fékk dæmda á sig sóknarvillu.

Ginobili engdist um á gólfinu í dágóðan tíma og Tim Duncan hjálpaði honum síðan inn í búningsklefa.

Hinn 38 ára gamli Manu Ginobili var að íhuga það að setja skóna upp á hillu eftir síðasta tímabil en ákvað að taka einn slag til viðbótar.

Hann hefur komið með 10,0 stig, 3,3 stoðsendingar, 3,0 fráköst og 1,1 stolinn bolta inn af bekknum á 19,7 mínútum í leik.

Tim Duncan hefur ekki spilað síðustu leiki liðsins og nú missir San Antonio Spurs liðið Manu Ginobili í langan tíma.

San Antonio Spurs hefur unnið 41 af 49 leikjum tímabilsins til þessa og mun sakna þess að fá hinn útsjónarsaman og leikreynda Manu Ginobili ekki inn af bekknum í næstu leikjum sínum.

NBA


Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira