Innlent

Varðskipið kallað út vegna hjartveiks skipverja í norsku loðnuskipi

sunna karen sigurþórsdóttir skrifar
Varðskipið Þór.
Varðskipið Þór. vísir/daníel

Varðskipið Þór var kallað út um klukkan eitt í dag eftir að beiðni barst frá björgunarmiðstöðunni í Stavanger um aðstoð vegna hjartveiks skipverja um borð í norsku loðnuskipi sem statt var um 115 sjómílur austur af Norðfirði á leið á loðnumiðin. Varðskipið var þá statt í um 58 sjómílna fjarlægð og var komið á vettvang rétt fyrir klukkan hálf fjögur í dag.

Sjúkraflutningamenn úr áhöfninni fóru um borð til að aðgæta sjúklinginn, tekið var hjartalínurit og ástand sjúklingsins metið. Í framhaldi af því var í samráði við þyrlulækni Landhelgisgæslunnar ákveðið að flytja sjúklinginn í land.

Nú halda bæði varðskipið Þór og norska loðnuskipið áleiðis til Neskaupstaðar og er fyrirhugað að þyrla Landhelgisgæslunnar fljúgi síðar til mótsvið skipin og flytji sjúklinginn á sjúkrahús.

Talsvert annríki hefur verið hjá gæslunni í dag. Skömmu eftir að beiðnin barst frá Noregi var óskað eftir þyrlu Landhelgisgæslunnar vegna tveggja slasaðra göngumanna á Skarðsheiði. Þyrlan hélt af stað og var fljótlega komin á slysstað. Þá höfðu björgunarsveitir ekki komist á vettvang og voru samferðamenn hinna slösuðu einir á vettvangi. Aðstæður á slysstað voru erfiðar en greiðlega gekk fyrir áhöfn þyrlunnar að búa um hina slösuðu og flytja þá um borð í þyrluna. Haldið var rakleiðis til Reykjavíkur og lent rúmlega þrjú við Landspítala Háskólasjúkrahús með göngumennina.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira