Formúla 1

Bird vann en Buemi með ótrúlega endurkomu

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Sam Bird leiddi alla keppnina í dag og tókst að verjast árásum Sebastian Buemi undir lokin.
Sam Bird leiddi alla keppnina í dag og tókst að verjast árásum Sebastian Buemi undir lokin. Vísir/Getty
Sam Bird á DS Virgin kom fyrstur í mark í Buenos Aires. Sebastian Buemi varð annar á Reanult e.Dams og Lucas Di Grassi varð þriðji á ABT.

Bird var á ráspól fyrir fjórðu keppni tímabilsins í Formúlu E. Buemi, sem leiðir heimsmeistarakeppni ökumanna ræsti af stað síðastur eftir vandræði í tímatökunni.

„Það er frábært að vera á ráspól. Við gerum ráð fyrir að fara 18 hringi á fyrri bílnum og 17 á seinni. Til að það takist þarf að fara varlega með orkuna alla keppnina,“ sagði Bird fyrir keppnina.

Jérôme D´Ambrosio lenti í vandræðum á Dragon bílnum, yfirbygging bílsins virtist leggjast á dekkið. Viðgerð á þjónustusvæðinu tókst vel. Það er ekki venjan að ökumenn taki þjónustuhlé í Formúlu E nema þegar þeir skipta um bíl um miðbik keppninnar. D´Ambrosio tapaði átta sætum vegna þessa.

Buemi átti mikið verkefni fyrir höndum. Honum langaði greinilega að klóra í bakkann og ná í einhver stig í keppninni. Hann var orðinn tíundi eftir sjö hringi.

Antonio Felix Da Costa á Aguri stal öðru sætinu af Nicolas Prost á Renault e.Dams á hring 13. Da Costa lenti í vandræðum á hring 18 og komst ekki af stað aftur.

Ökumenn tóku þjónustuhlé á hring 18, allir nema Nelson Piquet Jr. á Nextev TCR, hann tók einn auka hring og gat því notað meira afl á hring það sem eftir var í keppninni til að reyna að komast framar.

Öryggisbíll var kallaður út til að hægt væri að fjarlægja bíl Da Costa. Bílarnir voru í einni halarófu á eftir öryggisbílnum, þegar hann fór inn voru 13 hringir eftir.

Buemi var orðinn þriðji á 23. hring. Hann hafði unnið upp 15 sæti frá ræsingu. Buemi varð annar á hring 29 þegar hann tók fram úr Di Grassi á ABT.

Buemi hafði fimm hringi til að ná fyrsta sætinu af Bird. Buemi reyndi allt sem hann gat til að ná forystunni en allt kom fyrir ekki. Hann átti þrátt fyrir allt góðan dag, frá 18. sæti í annað verður að teljast býsna gott.


Tengdar fréttir

Sebastian Buemi vann Formúlu E í Ungverjalandi

Sebastian Buemi á Renault e.Dams kom fyrstur í mark í Formúlu E í Ungverjaldandi. Lucas di Grassi varð annar á ABT bílnum og Jerome d´Ambrosio varð þriðji á Dragon bílnum.

Sebastian Buemi vann í Kína

Sebastian Buemi á Renault vann fyrstu keppni Formúlu E tímabilsins sem fór fram í Peking í morgun. Lucas di Grassi varð annar á Abt Schaeffler Audi og Nick Heidfeld á Mahindra varð þriðji.

Lucas di Grassi vann í Putrajaya

Lucas di Grassi kom fyrstur í mark á ABT Schaeffler í annarri keppni tímabilsins í Formúlu E. Sam Bird á DS Virgin bílnum varð annar. Robin Frijns á Amlin Andretti varð þriðji.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×