Erlent

Öryggisráðið fordæmir eldflaugaskot

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Skjáskot úr útsendingu ríkissjónvarps Norður Kóreu þar sem Kim Jong-un, leiðtogi ríkisins, sést horfa á eldflaugaskotið.
Skjáskot úr útsendingu ríkissjónvarps Norður Kóreu þar sem Kim Jong-un, leiðtogi ríkisins, sést horfa á eldflaugaskotið. Vísir/AFP
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmir harðlega eldflaugaskot Norður-Kóreu og boðar hertar refsiaðgerðir gegn yfirvöldum þar í landi.

Öryggisráðið var kallað saman á sérstökum neyðarfundi í dag eftir að Norður-Kórea skaut eldflaug á loft í nótt. Samantha Power, fastafulltrúi Bandaríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum sagði að Bandaríkjamenn myndu ganga úr skugga um það að Öryggisráðið myndi grípa til harðra aðgerða.

Skjáskot úr útsendingu N-Kóreska ríkissjónvarpsins semm sýnir eldflaugaskotið.Vísir/AFP
Nú þegar eru í gildi refsiaðgerðir gagnvart Norður-Kóreu sem Öryggisráðið samþykkti í október 2007, fimm dögum eftir að fyrsta kjarnorkusprengja landsins var sprengd í tilraunaskyni. Þvinganirnar fólu meðal annars í sér bann við sölu vopna til landsins.

Yfirvöld í Norður-Kórea segja að tilgangur eldflaugaskotsins nú hafi verið til þess að koma gervitungli á braut umhverfis jörðu en stjórnvöld í Suður-Kóreu, Japan og Bandaríkjunum telja að þetta sé liður í áætlun Norður-Kóreumanna um að koma upp langdrægum flugskeytum sem gætu borið kjarnorkusprengjur.

Þá hyggjast varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna og Suður-Kóreu hefja formlegar viðræður um að koma upp bandarísku loftvarnarkerfi á Kóreuskaga vegna vaxandi ógnar en fyrr á árinu gáfu yfirvöld í Norður-Kóreu það út að þeim hefði tekist að sprengja vetnissprengju. Hefur það verið dregið í efa að sérfræðingum sem segja líklegra að um venjulega kjarnorkusprengingu hafi verið að ræða.


Tengdar fréttir

Ætla að skjóta á loft gervihnetti

Talið er að skotið sé eingöngu tilraun stjórnvalda til að þróa eldflaug sem gæti flutt kjarnorkuvopn til meginlands Bandaríkjanna.

Efast um fullyrðingar Norður-Kóreu

Sérfræðingar hafa sumir hverjir sagt ólíklegt að Norður-Kóreumenn hafi sprengt vetnissprengju í fyrrinótt, eins og þeir hafa stært sig af.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×