Innlent

Söngur hvala nýttur í vísindaskyni

Svavar Hávarðsson skrifar
Hvalaskoðun er vinsæl dægradvöl víða um heim, enda oft mikið sjónarspil.
Hvalaskoðun er vinsæl dægradvöl víða um heim, enda oft mikið sjónarspil. Mynd/María Björk
Umfangsmikil hvalatalning að vetri til er miklum takmörkunum háð vegna veðurs og birtuskilyrða. Þá er nákvæm hvalatalning svo kostnaðarsöm að hún er vart réttlætanleg yfir veturinn þegar illmögulegt er að tryggja árangur hennar. Hins vegar gæti tæknin gert það kleift í framtíðinni að svara spurningum um breytingar í lífríkinu hér við land.

Hvalur um allt

Loðnusjómenn greina frá mikill hvalagengd á miðunum fyrir norðan og austan land og má á hverjum tíma greina blástur frá tugum og jafnvel hundruðum dýra. Útgerðarmenn spyrja hvort ekki sé full ástæða til þess að rannsaka hvalastofnana sérstaklega og „vetursetu“ þeirra, enda eru þeir stórtækir í ætisöflun sinni.

Eftir að Hafrannsóknastofnun birti niðurstöður sínar úr loðnuleiðangri í janúar hefur umræða um hafrannsóknir, eða takmarkanir þar á, risið að nýju. Það er að segja af hverju hafrannsóknaskipin séu á löngum köflum bundin við bryggju á meðan krefjandi verkefni eru augljóslega mörg.

Loðnukvótinn sem fellur í hlut íslenskra útgerða að óbreyttu er 100 þúsund tonn, sem er hálfgerður skítaslatti miðað við síðustu vertíðir. Spurt hefur verið hvort með frekari rannsóknum mætti fá betra mat á stofninum og auka við veiðiheimildir, enda gríðarlegir hagsmunir undir. Hver 100 þúsund tonn eru metin á tólf milljarða króna. Hvort sú umræða eða þrýstingur frá hagsmunaaðilum bar árangur skal ósagt látið, en hafrannsóknaskipin tvö héldu að nýju á loðnumiðin á mánudag til frekari rannsókna.

Verðugt verkefni

Gísli Víkingsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, telur að rannsóknir á fjölda stórhvela við landið á þessum árstíma væru mjög verðugt verkefni – og nauðsynlegt enda lítið vitað um fjölda þeirra hér við land yfir háveturinn.

„Ég lít á þetta sem hluta af þeim miklu breytingum sem eru að verða á öllu lífríki sjávar í kjölfar loftslagsbreytinga og hlýnunar sjávar. Lífríkið er allt á fleygiferð og breytingarnar má líka greina á göngum loðnunnar,“ segir Gísli en bætir við að miklar breytingar hafa orðið í fjölda stórhvela við landið. 

Í fyrstu talningum við Ísland árið 1987 voru hnúfubakar taldir um 2.000 en stofninn hefur síðan náð sér vel á strik og er í dag um 14.000 dýr. Þetta er merkilegt þar sem hnúfubakur var mjög sjaldgæfur alla síðustu öld eftir mikla ofveiði um allan heim, en þetta sama má segja um hnúfubaksstofna við Noreg, Grænland, Bandaríkin og allt suður til Ástralíu. 

Svo virðist sem að um 1980 hafi stofninn farið yfir einhvern þröskuld og fjölgun hans verið mikil síðan. Engin ein góð skýring er á þessu, en hugsanlega tengist þetta sveigjanleika hnúfubaksins hvað varðar fæðuval og því að hann er hér lengur fram á veturinn í æti en aðrar tegundir skíðishvala.

Hvað segja skólabækurnar?

Hvalatalningar fara yfirleitt fram að sumarlagi, þegar talið er að fjöldinn sé mestur á norðlægum fæðuslóðum eins og hér við land. Skólabækurnar segja vissulega að þeir eigi flestir að vera löngu horfnir til suðrænni hafsvæða þar sem þeir hafa vetursetu, og ekki von á þeim aftur fyrr en vorar.

Málið er þó ekki einfalt ef sækja á frekari upplýsingar um far hvala. Talningar á öðrum tíma en yfir sumarið eru afar erfiðar vegna veðurs og birtuskilyrða. „Eins eru þessar talningar mjög kostnaðarsamar og nokkuð sem við gerum á sex til átta ára fresti með sérstökum fjárveitingum,“ segir Gísli. Nýjasta tækni gæti þó leyst gátuna um fjölda og ástæður þess að fleiri dýr halda sig við Ísland langt fram á veturinn, eða fara jafnvel alls ekki suður úr.

Hvalasöngur

„Það má binda nokkrar vonir við að á síðustu árum hafa vísindamenn farið meira og meira yfir í að hlusta eftir hljóðum hvala. Það er ekki enn þá komið svo langt að greina megi á milli einstaklinga og meta fjarlægð þeirra frá skipi, sem nauðsynlegt er til stofnstærðarútreikninga, en menn sjá það fyrir sér að í framtíðinni verði mögulegt að telja hvali með þessum hætti. 

Það yrði bylting við að telja á þeim árstíma þegar aðstæður eru óhagstæðar til hefðbundinna talninga,“ segir Gísli en einnig hafa vísindamenn gert töluvert af því að merkja hvali með gervihnattamerkjum til að skrásetja far þeirra og lifnaðarhætti. Þó eru slíkar rannsóknir einnig takmörkunum háðar enn þá, og þeir þrír hnúfubakar sem Hafrannsóknastofnun merkti sl. haust fóru aldrei langt frá merkingarstaðnum áður en merkin hættu að senda upplýsingar nú í janúar. Hins vegar tókst að fylgjast með hnúfubak sem fór suður í Karíbahaf og til baka til Íslands veturinn 2014-2015.

„Rannsóknir hafa staðfest að íslenskir og norskir hvalir halda sig lengur á fæðuslóð og koma síðar þarna suður eftir en aðrir stofnar – þeir sem halda sig við Grænland eða Ameríku­strendur á sumrin. Eins og hér hefur mikill fjöldi hnúfubaka haldið sig við Norður-Noreg að vetrarlagi á síðustu árum, og þá við síldarát inni á fjörðum. Þetta er því ekki einföld mynd og margar spurningar sem þarf að svara,“ segir Gísli.

Fyrsta hausttalningin sýndi mikið af hval

Í september og fram í október var gerð fyrsta tilraun Hafrannsóknastofnunar til að fá mat á fjölda hvala á loðnumiðum hér við land að haustlagi.

Rannsóknin sýndi mikinn fjölda hvala á loðnumiðunum á þessum árstíma. Þar sem loðna fannst sást að jafnaði einnig til hvala, aðallega hnúfubaks og langreyðar, og var metinn fjöldi þeirra ríflega 12.000 dýr á leitarsvæðinu – um 7.000 hnúfubakar og 5.000 langreyðar.

Taka ber þessum tölum með fyrirvara þar sem ekki var unnt að meta óvissu niðurstaðnanna. Ekki var talið á öllu því svæði þar sem loðnu hafði orðið vart og fjöldi hvala heldur sig utan svæða þar sem loðnan heldur sig á hverjum tíma.

Mikið sást einnig af hval í loðnuleiðangri í nóvember þótt ekki væru hvalatalningarmenn um borð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×