Enski boltinn

Henderson um mótmælin á Anfield: Getum ekki notað þetta sem afsökun

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Henderson reynir að stöðva Wahbi Khazri í leiknum á laugardaginn.
Henderson reynir að stöðva Wahbi Khazri í leiknum á laugardaginn. vísir/getty
Liverpool fór illa að ráði sínu gegn Sunderland á laugardaginn en liðið missti niður tveggja marka forystu undir lok leiksins.

Roberto Firmino og Adam Lallana komu Liverpool í 2-0 en mörk frá Adam Johnson og Jermain Defoe tryggðu Sunderland stig.

Stór hluti stuðningsmanna Liverpool yfirgaf völlinn á 77. mínútu til að mótmæla fyrirhugaðri hækkun á miðaverði á Anfield Road.

Talið er að rúmlega fjórðungur þeirra 40.000 sem var á Anfield á laugardaginn hafi yfirgefið völlinn þegar 13 mínútur voru til leiksloka en þessir stuðningsmenn misstu því af því þegar Liverpool glutraði niður forskotinu.

Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool, segir að liðið geti ekki notað þessi mótmæli sem afsökun fyrir klúðrinu gegn Sunderland.

„Við getum ekki afsakað okkur með þessu. Við leikmennirnir einbeitum okkur bara að því sem gerist inni á vellinum. Ég held að annað trufli okkur ekki,“ sagði Henderson.

„Við getum ekki notað þetta sem afsökun. Við verðum að taka ábyrgð á þessu sem einstaklingar og síðustu 10 mínúturnar voru ekki nógu góðar. Við verðum að klára svona leiki,“ bætti fyrirliðinn við.

Liverpool sækir West Ham heim í endurteknum leik í 4. umferð ensku bikarkeppninnar á morgun. Sigurvegarinn mætir Blackburn Rovers í 16-liða úrslitunum 21. febrúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×