Enski boltinn

Defoe: Fyrst Leicester getur þetta, af hverju ekki við?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Defoe er ellefti markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.
Defoe er ellefti markahæsti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi. vísir/getty
Jermain Defoe segir að ótrúlegt gengi Leicester City í vetur sé hvatning fyrir Sunderland í botnbaráttunni.

Sunderland hefur gengið illa á tímabilinu og situr í 19. og næstneðsta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 20 stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Sunderland var einnig í fallbaráttu á síðasta tímabili, líkt og Leicester. Bæði lið björguðu sér frá falli síðasta vor og nú, tæpu ári síðar, er Leicester með fimm stiga forystu á toppi deildarinnar.

„Saga Leicester er ótrúleg. En ef þú hugsar út í það, fyrst þeir geta þetta, af hverju ekki við?“ sagði Defoe sem hefur mikla trú á Sunderland þrátt fyrir dapurt gengi í vetur.

„Við erum með svo sterkan leikmannahóp og nýju mennirnir hafa komið inn og verið stórkostlegir. Liðsandinn er frábær og ef við höldum áfram að leggja okkur fram fara úrslitin að fylgja með.“

Defoe hetja var Sunderland um helgina en hann tryggði liðinu stig gegn Liverpool á Anfield þegar hann jafnaði metin í 2-2, mínútu fyrir leikslok.

Þetta var tíunda mark Defoe í úrvalsdeildinni í vetur en hann hefur fundið sig vel undir stjórn Sams Allardyce sem tók við Sunderland-liðinu af Dick Advocaat.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×