Viðskipti innlent

Landsbankinn hefur ekki fengið svör frá Borgun

Atli Ísleifsson skrifar
Landsbankinn seldi rúmlega þrjátíu prósenta hlut í Borgun fyrir 2,2 milljarða til stjórnenda og hóps fjárfesta árið 2014.
Landsbankinn seldi rúmlega þrjátíu prósenta hlut í Borgun fyrir 2,2 milljarða til stjórnenda og hóps fjárfesta árið 2014. Vísir/Ernir
Landsbankinn hafði við sölu á hlut sínum í Borgun enga vitneskju um að Borgun ætti yfirhöfuð rétt til greiðslna vegna valréttar í tengslum við samruna Visa Inc. og Visa Europe, kæmi til þess að hann yrði virkjaður.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá bankanum.

„Fyrir helgi sendi Landsbankinn skriflega fyrirspurn til Borgunar og óskaði eftir skýrum svörum um það hvort upplýsingar hafi legið fyrir hjá félaginu eða stjórnendum þess um að Borgun kynni að eiga rétt til greiðslna á grundvelli umrædds valréttar.

Í yfirlýsingu Borgunar sem send var fjölmiðlum í dag er spurningum Landsbankans ekki svarað. Þar kemur ekki fram hvort Borgun eða stjórnendur þess hafi vitað að fyrirtækið ætti rétt til greiðslna vegna valréttarins. Engin svör hafa borist beint til Landsbankans en bankinn væntir þess að þau berist á morgun, þriðjudaginn 9. febrúar, líkt og óskað var eftir,“ segir í yfirlýsingunni.

Borgun segir bankann hafa haft aðgang að gögnum

Í yfirlýsingu frá Borgun frá því fyrr í dag segir að Landsbankinn hafi haft aðgang að öllum gögnum í tengslum við söluna á hlut bankans í Borgun síðla árs 2014.

Sérstakt gagnaherbergi hafi verið útbúið með ítarlegum upplýsingum um Borgun og rekstur félagsins í tengslum við sölu á hlut Landsbankans í félaginu. Segir að í gagnaherberginu hafi legið fyrir upplýsingar um aðild og eignarhlut Borgunar í Visa Europe sem og upplýsingar um valréttarákvæði á milli Visa Inc. og VISA Europe, að því er segir í tilkynningu Borgunar.

Sala á þrjátíu prósent hlut

Landsbankinn seldi rúmlega þrjátíu prósenta hlut í Borgun fyrir 2,2 milljarða til stjórnenda og hóps fjárfesta árið 2014 en salan hefur sætt talsverðri gagnrýni að undanförnu. Hluturinn var ekki boðinn út og því ekki á allra færi að bjóða í hann.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×