Innlent

Borgin leitar svara um fjármögnun moskunnar

Bjarki Ármannsson skrifar
Kjartan Magnússon vill að það liggi fyrir hvernig bygging mosku í Sogamýri er fjármögnuð.
Kjartan Magnússon vill að það liggi fyrir hvernig bygging mosku í Sogamýri er fjármögnuð. Vísir
Þeir trúarsöfnuðir sem fengið hafa úthlutað lóðum hjá Reykjavíkurborg undir fyrirhugaðar byggingar, verða beðnir um að veita upplýsingar til borgarinnar um það hvernig staðið verður að fjármögnun þeirra bygginga. Þetta var samþykkt á fundi borgarstjórnar í síðustu viku.

Meðal þeirra söfnuða sem krafðir verða um svör er Félag múslima á Íslandi, sem hyggst reisa mosku í Sogamýri. Tæplega ár er liðið frá því að embætti Forseta Íslands hélt því fram að yfirvöld í Sádi-Arabíu hygðust styðja byggingu moskunnar með fjárframlagi upp á um 135 milljónir íslenskra króna. Hvorki sendiráð Sádi-Arabíu í Stokkhólmi né Félag múslima hafa staðfest þetta.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagðist í fyrra hafa óskað eftir því við mannréttindaskrifstofu borgarinnar að aflað yrði upplýsinga um þessa meintu fjárveitingu.

Nú í síðasta mánuði kom þó fram í svari borgarstjóra við fyrirspurn borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins að það væri mat borgarinnar að engin lagaskylda hvíli á trúfélögum að upplýsa um hvernig staðið er að fjármögnun kirkjubygginga eða tilbeiðsluhúsa.

Vinningstillagan í samkeppni um hönnun moskunnar í Sogamýri.Mynd/Atli Bergmann
Rétt að það liggi fyrir frá hverjum styrkir koma

„Við getum samt auðvitað óskað eftir upplýsingum frá þeim,“ segir Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem gagnrýnt hefur aðgerðir borgarinnar í málinu. „Megnið af upplýsingaöflun borgarinnar fer þannig fram að við óskum eftir einhverjum upplýsingum frá aðilum, án þess að við séum að hóta þeim með lögfræðingum. Og í langflestum tilvikum, þá verða menn bara mjög ljúflega við þeirri beiðni.“

Kjartan segir borgarstjóra ekkert hafa gert til að afla upplýsinga um málið í næstum ár, þrátt fyrir yfirlýsingar um hið gagnstæða.

„Mér finnst bara rétt að fólkið í Reykjavík viti þetta,“ segir hann. „Þetta er náttúrulega lóð í eigu borgarinnar, sem er úthlutað ókeypis til ákveðinnar starfsemi, og mér finnst bara fínt að það liggi fyrir frá hverjum svona styrkir koma, hversu háir þeir eru og hvort einhver skilyrði fylgi þeim.“

Sverrir Agnarsson, þáverandi formaður Félags múslima, sagði í fyrra að félaginu hefði ekki borist nein tilkynning um fjárstyrki frá Sádi-Arabíu. Menningarsetur múslima á Íslandi, hitt trúfélag múslima hérlendis, sagðist sömuleiðis ekki kannast við málið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×