Handbolti

Bestu handboltaliðum heims gæti verið rænt úr Meistaradeildinni

Tómas Þór Þórðarso skrifar
Barcelona fær væntanlega boðsmiða í nýju deildina.
Barcelona fær væntanlega boðsmiða í nýju deildina. vísir/epa

Svo gæti farið að Meistaradeildin í handbolta fái verðugan keppinaut og missi jafnvel lið í nýja úrvalsdeild í handbolta sem mun samanstanda af bestum liðum heims.

Fréttir þess efnis fóru á kreik í kringum Evrópumótið í handbolta og hafa vakið mikla athygli innan handboltaheimsins.

Stefnt er á að spila fyrst í nýju úrvalsdeildinni tímabilið 2018/2019 en byrjað verður með tólf liða deild. Aðeins stærstu liðin úr stærstu borgunum fá að vera með og ekki bara lið úr Evrópu. Þetta verður einskonar heimsdeild.

Einn stofnanda deildarinnar er ofur umboðsmaðurinn Wolfgang Gütschow sem er mikill Íslandsvinur og er með íslenska landsliðsmenn á sínum snærum. Hann er í stóru viðtali um deildina á vefsíðunni Handball-World.

Aron Pálmarsson og félagar í Vezprém koma væntanlega til greina. vísir/epa

Kasi-Jesper vill vera með
„Viðbrögðin hafa komið okkur á óvart. Danski frumkvöðullinn Jesper Nielsen segist vilja vera með og ætlar að stofna nýtt lið sem heitir AG Amazing Copenhagen,“ segir Gütschow, en skartgripaauðjöfurinn Jesper Nielsen átti danska liðið AG Kaupmannahöfn sem Ólafur Stefánsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason spiluðu með.

„Tólf lið er raunhæft til að byrja með þar sem það eru ekki það mörg risastór lið. Við munum samt ekki koma í veg fyrir að stækka deildina. Liðin munu halda áfram að keppa í sínum deildum heima fyrir.“

Gütschow segir eitt markmiðanna með að hafa bara stórlið frá stórborgum í deildinni að hver leikur verði mikill viðburður og svipi til úrslitahelgarinnar í Meistaradeildinni í Köln.

Líklega verður spilað frá febrúar til desember þannig lið geta mætt með nýja leikmenn til leiks í seinni hluta deildarinnar.

Rhein-Necker Löwen er lið sem kemur til greina samkvæmt umboðsmanninum. vísir/getty

Skotklukka
Gütschow segir lið í Meistaradeildinni tapa peningum. „Með fullri virðingu þá eru lið í litlum bæjum í Meistaradeildinni og þannig er ekki hægt að standa undir góðri vöru,“ segir hann.

„Meistaradeildin er vel skipulögð og vinaleg en fyrir flest liðin er þetta fjárhagslegt svarthol. Flensburg spilaði til dæmis í Istanbúl fyrir framan 300 manns.“

Nýjungar verða í deildinni eins og skotklukka og gullmark. „Það gengur ekki að dómarar ákveði hversu langar sóknirnar eiga að vera. Við þurfum að fækka dómaramistökum. Græna spjaldið mun hverfa og þá verða bjöllur á ritaraborðinu sem þjálfararnir geta notað til að kalla leikhlé. Það er ekki í boði að eftirlitsmaður kalli leikhlé. Við munum nota myndbandstækni og svo þarf spennandi handboltaleikur sigurmark. Gullmarkið mun því koma inn í þetta,“ segir Wolfgang Gütschow.

Þýsk lið sem eiga greiða inngöngu í nýju úrvalsdeildina eru Íslendingaliðin Kiel og Füchse Berlín en svo verður Kadetten Schaffhausen frá Sviss líklega boðið með og vonast er eftir liði í Amsterdam og Vín. Þá verða lið frá Katar líklega með en fyrirspurnir hafa nú þegar borist þaðan.

Allt viðtalið á þýsku má lesa hér og á ensku hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira