Viðskipti innlent

Endurupptökunefnd hafnar beiðni Ólafs Ólafssonar um endurupptöku Al Thani-málsins

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Ólafur Ólafsson
Ólafur Ólafsson vísir/vilhelm
Endurupptökunefnd hefur hafnað beiðni Ólafs Ólafssonar sem dæmdur var í fjögurra og hálfs árs langt fangelsi í Al Thani-málinu um að málið verði tekið upp aftur.

Ólafur fór fram á að málið yrði tekið upp að nýju þar sem hann taldi að sönnunargögn í málinu hefðu verið ranglega metin. Að mati hans lagði Hæstiréttur rangt mat á símtal tveggja manna, þar sem annar vísar til samtals við ótilgreindan mann sem kallaður var „Óli“, um tiltekna þætti viðskiptanna sem málið tók til.

 

Þá taldi Ólafur jafnframt að í dóminum hafi setið dómarar sem voru vanhæfir vegna tengsla ættingja þeirra við slitastjórn Kaupþings.

Í yfirlýsingu sem Ólafur sendi frá sér í dag kemur fram að það séu honum og fjölskyldu hans „veruleg vonbrigði“ að endurupptökunefnd hafi hafnað beiðni hans.

„Það er grundvallaratriði þegar einstaklingur er dæmdur í fangelsi að ekki sé ástæða til að véfengja hæfi dómara og að niðurstaðan byggi á réttu mati á gögnum málsins,“ segir í yfirlýsingu Ólafs.

Þar kemur jafnframt fram að Ólafur telur rökstuðning endurupptökunefndar fyrir niðurstöðu sinni ófullnægjandi.

„Nefndin gerir ekki fullnægjandi greinarmun á því um hvaða Ólaf viðskiptin snúast og við hvaða Ólaf sá sem talar kveðst hafa rætt. Slíkur vafi er uppi um hvort mat Hæstaréttar á efni símtalsins er rétt að nefndinni hefði borið að fallast á beiðni um endurupptöku til þess að úr því yrði skorið.

Endurupptökunefnd hafnar hins vegar beiðni um endurupptöku þrátt fyrir að óumdeilt sé að mati Ólafs, að fullnægt sé því skilyrði laganna fyrir endurupptöku, að verulegar líkur séu á að umrædd sönnunargögn hafi verið rangt metin þannig að áhrif hafi haft á niðurstöðu málsins.“

Yfirlýsingu Ólafs má nálgast í viðhenginu hér að neðan.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×