Enski boltinn

Guardian: Er Gylfi besti spyrnumaðurinn í ensku úrvalsdeildinni?

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gylfi er afburða spyrnumaður.
Gylfi er afburða spyrnumaður. vísir/afp

Líkt og vanalega fer the Guardian yfir 10 markverð atriði úr leikjum helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni.

Eitt þessara atriða snýr að Gylfa Þór Sigurðssyni sem skoraði mark Swansea City í 1-1 jafntefli við Crystal Palace á laugardaginn með skoti beint úr aukaspyrnu. Þetta var fimmta mark Gylfa í síðustu sex leikjum Swansea og sjöunda deildarmark hans á tímabilinu.

Sjá einnig: Gylfi: Vonandi held ég áfram að skora

Stuart James, blaðamaður Guardian, veltir þeirri spurningu upp hvort Gylfi sé besti spyrnumaðurinn í ensku úrvalsdeildinni.

„Það er erfitt að finna meira traustvekjandi sjón á þessu erfiða tímabili hjá Swansea en Gylfa Þór Sigurðsson að búa sig undir að taka aukaspyrnu,“ skrifar James.

„Gylfi skoraði þarna sitt fimmta mark í sex leikjum með skoti beint úr aukaspyrnu - þetta er komið á það stig að maður býst nánast við að hann skori þegar hann stendur yfir boltanum rúmlega 20 metra frá markinu - og var nálægt því að bæta öðru við af svipuðu færi.“

James segir einnig að hornspyrnur Gylfa séu jafnan góðar og að vítaspyrnan sem hann skoraði úr gegn Everton hafi verið eins örugg og þær gerast.

James skrifar svo að lokum: „Í liði sem á í vandræðum með að skora mörk er framlag Gylfa ómetanlegt.“

Sjá einnig: Gylfi jafnaði fjórtán ára afrek Eiðs Smára

Gylfi og félagar í Swansea hafa rétt úr kútnum að undanförnu eftir brösugt gengi framan af tímabili og náð í átta stig í síðustu fjórum leikjum sínum.

Mark Gylfa gegn Crystal Palace

Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira